Breyting á skuldfærslu vörugjalds af ökutækjum
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ákveðið að breyta reglum um skuldfærslu vörugjalds af ökutækjum.
Breytingin tekur til innflytjenda sem stunda innflutning á ökutækjum í atvinnuskyni og hafa gert upp vörugjald á ökutækjum miðað við eins mánaðar uppgjörstímabil, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Þeir munu frá 1. mars 2020 fá að fresta greiðslu vörugjalds fram að nýskráningu ökutækis, þó ekki lengur en í 12 mánuði frá tollafgreiðsludegi. Þessi breyting, sem er ætlað að létta undir og koma til móts við innflytjendur ökutækja í atvinnuskyni á tímum Covid-19, verður gerð með breytingu á 7. gr. fyrrnefndrar reglugerðar og mun hún taka gildi föstudaginn 17. apríl.
Breytingin hefur í för með sér að gjalddaginn 15. apríl 2020 fellur niður vegna ökutækja sem ekki hafa fengið nýskráningu. Fjársýsla ríkisins vinnur að tæknilegri útfærslu breytingarinnar.
Þeir innflytjendur sem þegar hafa greitt gjaldið geta óskað eftir endurgreiðslu vegna þeirra ökutækja sem falla undir gjalddagabreytinguna.