Fréttir og tilkynningar


Breyting á vörugjaldi af ökutækjum og bifreiðagjaldi

28.12.2010

Embætti Tollstjóra vekur athygli á breytingum á vörugjaldi af ökutækjum og bifreiðagjaldi sem taka gildi þann 1. janúar 2011, sbr. lög nr. 197/2010.

Með lögunum er gerð kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja og eldsneytis að því er varðar viðmið skattlagningar.

Vörugjald af ökutækjum miðast nú við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra í stað þess að miða við sprengirými aflvélar mælt í rúmsentímetrum. Vörugjald af dráttarvélum fellur niður með öllu í stað þess að vera 10% nema dráttarvélin sé ætluð til nota á lögbýli.
Þá er tekin inn í lögin heimild Tollstjóra til niðurfellingar vörugjalds af nýjum og ónotuðum ökutækjum sé þeim breytt fyrir nýskráningu þannig að þau nýti metan í stað bensíns eða dísilolíu og breytingin sé staðfest og vottuð í skráningarskoðun ökutækisins.

Bifreiðagjald af ökutækjum tekur nú mið af skráðri koltvísýringslosun viðkomandi ökutækis mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra , í stað þyngdar áður. Fyrir losun allt að 121 gramms af skráðri kolefnislosun ökutækis skal bifreiðagjald ökutækja að eigin þyngd 3.500 kg eða minna vera kr. 5.000.- en kr. 120.- fyrir hvert gramm af skráðri losun umfram það á hverju gjaldtímabili. Fyrir ökutæki að eigin þyngd meira en 3.500 kg er bifreiðagjald hvers tímabils kr. 46.880.- að viðbættum kr. 2.- fyrir hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækis umfram 3.500 kg, þó ekki hærra en kr. 73.800.- á hverju tímabili.

Nánari upplýsingar um lög nr. 197/2010 um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum , skilyrði þeirra og þær breytingar sem þau hafa í för með sér er að finna hér


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum