Fréttir og tilkynningar


Breyting vörugjalda á matvælum með viðbættum sykri og sætuefnum og breyting á tollskrá 1. mars 2013

22.2.2013

Varðar m.a. innflytjendur, útflytjendur, tollmiðlara og hugbúnaðarhús, sem selja eða þjónusta hugbúnað til tollskýrslugerðar og EDI/SMT-tollafgreiðslu. Og upplýsingar fyrir innflytjendur, sem nota VEF-tollafgreiðslu á vef Tollstjóra.

Ábendingar

Almennt gildir að breytingarnar taka til allra viðkomandi vara sem ótollafgreiddar eru 1. mars 2013.

Um útflutning gildir sérstaklega: Í útflutningsskýrslu skal nota tollskrárnúmer, skilmála þess og tollafgreiðslugengi sem í gildi er tollafgreiðsludag útflutningsskýrslunnar, en þó skal aldrei miða við nýrri dag en brottfarardag flutningsfars til útlanda er flytur vörusendingu sem útflutningsskýrslan tekur til.

Þegar leiðrétta eða breyta þarf aðflutningsskýrslum vegna þegar tollafgreiddra vörusendinga, t.d. vegna of- eða vangreiddra gjalda, þá bera þær leiðréttingar aðflutningsgjöld skv. tollskrá, lögum og reglugerðum sem í gildi voru tollafgreiðsludaginn eða e.a. bráðabirgðatollafgreiðsludaginn og nota skal tollafgreiðslugengi þess dags. Tollskrárnúmer, skilmálar þeirra, gjöld og tollafgreiðslugengi innfluttra hraðsendinga miðast við þann dag þegar tollgæsla veitti leyfi til að afhenda sendinguna til notkunar innanlands (langoftast komudagur hraðsendingar til landsins).

Á vef Tollstjóra má frá og með 25. febrúar 2013 skoða aðflutningsgjöld og taxta þeirra fyrir og eftir 1. mars 2013 með því að velja viðeigandi viðmiðunardagsetningu. Ennfremur fást upplýsingar um tollskrárnúmer, gjöld á þeim o.fl. í tollskránni á vef Tollstjóra. Breytta, uppfærða tollskrá í tollskránni á vef Tollstjóra má skoða frá og með 1. mars 2013.

 

1. Breyting á tollskrá, viðauka I við tollalög nr. 88/2005

Varðar bæði inn- og útflutning. Breyting verður á tollskrá 1. mars 2013 skv. eftirtöldum heimildum:

 

a. Breyting á tollskrá skv. auglýsingu nr. 4/2013 (A-deild Stjórnartíðinda) um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005, með síðari breytingum.

b. Breyting á tollskrá skv. 9. gr. laga nr. 156/2012 um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Þessi breyting er einkum vegna tilkomu breyttra vörugjalda á matvæli með viðbættum sykri og sætuefnum.

Sjá lið 9 hér neðar varðandi uppfærða tollskrárlykla til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar.

 

2. Breytingar á vörugjöldum; XA kr/kg og XB kr/lítra vörugjöldum

Breytingarnar eru skv. lögum nr. 156/2012 um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Helstu breytingarnar eru:

 

a. Taxtar á XA og XB vörugjöldum hækka.

b. Nýir og breyttir A- og B-liðir viðauka I við lög nr. 97/1987 um vörugjald taka gildi, sbr. a. og b. lið 7. gr. laga nr. 156/2012. A- og B liðir viðauka I taka tillit til breytinga á tollskrá sem tekur gildi á sama tíma. A-liður er tæmandi listi yfir öll tollskrárnúmer sem bera XA vörugjald frá og með 1. mars 2013 og sama gildir um B-lið varðandi XB vörugjald.

c. Breyting verður á því hvaða tollskrárnúmer (vara) er gjaldskyld. Bæði fellur gjaldskylda af nokkrum tollskrárnúmerum og önnur verða gjaldskyld.

d. Skv. 1. gr. laga nr. 156/2012 tekur gildi nýjung við álagningu vörugjalds. Innflytjanda er heimilt að óska eftir í aðflutningsskýrslu að í stað þess að álagt sé XA eða XB vörugjald á vöru í gjaldskyldu tollskrárnúmeri yfir matvæli þá leggi Tollstjóri á við tollafgreiðslu vörugjald skv. þyngd viðbætts sykurs og/eða sætuefna í vörunni. Þessi nýju vörugjöld eru:

X1 vörugjald 210 kr/kg af viðbættum sykri í vöru.
X2 vörugjald 42 kr/gramm af viðbættum sætuefnum í vöru.

Þegar innflytjandi óskar eftir að greiða X1 og/eða X2 vörugjald í stað XA eða XB vörugjalds er vörulína tollskrárnúmers í aðflutningsskýrslu fyllt út á sérstakan hátt.

e. Innflytjandi sem flytur inn gjaldskylda vöru með XA eða XB vörugjaldi og vill fá þau gjöld álögð við tollafgreiðslu fyllir út aðflutningsskýrslu á sama hátt og verið hefur fyrir breytingarnar 1. mars 2013.

f. Í aðflutningsskýrslu geta verið ýmsar gjaldskyldar vörur í nokkrum tollskrárnúmerum sem bera XA eða XB vörugjald. Innflytjandi getur óskað eftir því á hverri vörulínu tollskrárnúmers fyrir sig hvort hann óskar eftir að greiða X1 og/eða X2 vörugjald á þeirri vörulínu.

 

3. Breyting á gjaldskyldu nokkurra tollskrárnúmera með XC og XD vörugjöld

Skv. c., d. og e. liðum 7. gr. laga nr. 156/2012: Frá og með 1. mars 2013 leggst XC vörugjald á tollskrárnúmerin 4421.9021, 9019.1011 og 9019.1012. Frá sama tíma fellur XC vörugjald niður af 7009.1000, 7014.0001 og 8708.9500 og ennfremur fellur XD vörugjald niður af tollskrárnúmerum 8418.6101 og 8516.7909.

 

 

4. Tollskráin á vef Tollstjóra og tollskrárlyklar

Í tollskránni á vef Tollstjóra má skoða tollskrárnúmer, viðauka I við tollalög, og ýmsa skilmála þeirra, þ.e. hvaða tollar, önnur gjöld o.fl. er á tollskrárnúmeri.

 

  • Á þau tollskrárnúmer sem bera XA eða XB vörugjald og eru matvæli (þ.m.t. drykkjarvörur ýmsar) mun auk XA eða XB vörugjalda einnig verða skráð X1 og/eða X2 vörugjöld frá og með 1. mars 2013.
  • Í tollskránni á vef Tollstjóra mun í öllum tilfellum verða bæði X1 og X2 vörugjöld skráð á viðkomandi tollskrárnúmer, sbr. nýir og breyttir A- og B-liðir viðauka I við lög nr. 97/1987 um vörugjald, sbr. a. og b. lið 7. gr. laga nr. 156/2012. Nema á tollskrárnúmer sem innihalda bara sykurefni eða bara sætuefni, en á þau númer verður X1 vörugjald skráð á tollskrárnúmer er innihalda sykurefni og X2 vörugjald skráð á tollskrárnúmer er innihalda sætuefni. X1 og X2 vörugjald er ekki valkostur á þau tollskrárnúmer í 40. kafla tollskrár sem bera XA vörugjald (gúmmívörur).
  • XA/XB og X1/X2 vörugjöld eru aldrei lögð á bæði í einu á vöru í vörulínu tollskrárnúmers í aðflutningsskýrslu við tollafgreiðslu.

Varðandi tollskrárlykla, sbr. lið 9 hér neðar, til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar þá munu þeir endurspegla ofangreint. Bæði annarsvegar XA eða XB vörugjöld og hinsvegar X1 og/eða X2 vörugjöld verða á viðkomandi tollskrárnúmerum.

 

5. Aðflutningsskýrsla, ebl. E-1, breytt útfylling vörulínu tollskrárnúmers.

Innflytjanda, sem hefur til staðar innihaldslýsingu frá framleiðanda vöru þar sem fram kemur nákvæm þyngd sykurs og/eða sætuefna, er heimilt að óska eftir að greiða X1 vörugjald 210 kr/kg af viðbættum sykri í vöru og/eða X2 vörugjald 42 kr/gramm af viðbættum sætuefnum í vöru í stað XA eða XB vörugjalda. Innflytjandi skal setja þá beiðni fram með því að fylla út viðkomandi vörulínu tollskrárnúmers á sérstakan hátt. Þær upplýsingar koma til viðbótar þeim upplýsingum sem þegar ber að skrá um tollskrárnúmerið/vöruna í aðflutningsskýrslunni. Ef bæði X1 vörugjald (magntölulykill SYK) og X2 vörugjald (magntölulykill SÆT) er á tollskrárnúmeri í tollskránni á vef Tollstjóra og í tollskrárlyklum frá Tollstjóra verður að skrá upplýsingar bæði um sykur og sætuefni í vöru. Ef magn er 0,00 (núll) er það skráð með viðkomandi magntölulykli. Hér eru leiðbeiningar um útfyllingu aðflutningsskýrslu, vörulínu tollskrárnúmers.

 

 

5.1 Dæmi um aðflutningsskýrslu og EDI-skeyti skýrslunnar (CUSDEC)

Hér er dæmi um aðflutningsskýrslu með nokkrum tollskrárnúmerum sem innihalda sykur og/eða sætuefni og þar sem óskað er eftir að greiða X1 og/eða X2 vörugjald nema í þriðju vörulínu; þar yrði álagt XA gjald. Á síðu 2 og 3 í skjalinu er CUSDEC skeyti skýrslunnar.

 

 

5.2 Breytingar varðandi EDI-staðal. CUSDEC skeyti (EDI/SMT-aðflutningsskýrsla)

Sjá breytingu bls. 38. Magntölulyklum SYK og SÆT bætt við gagnalið 6411. Vegna heimildar innflytjanda matvæla til að tilgreina þyngd viðbætts sykurs eða sætuefna í vöru. Sjá CUSDEC staðalinn hér.

 

 

5.3 Breytingar varðandi EDI-staðal. Nýir villukódar í svarskeyti Tollstjóra (CUSERR)

Nýir villukódar sem geta komið upp í svarskeyti Tollstjóra (CUSERR), athugasemdir við EDI-aðflutningsskýrslu, sem er til tollmeðferðar hjá Tollstjóra:
61V - Kóda vegna viðbætts sykurs (SYK) eða sætuefnis (SÆT) vantar
62V - Magn sykurs og/eða sætuefnis > nettóþyngd vörunnar í vörulínunni

 

Sjá villukóda sem geta komið í CUSERR skeyti hér.

 

6. Upplýsingar í tollreikningum á pappír og EDI og VEF (CUSTAR) skuldfærslutilkynningum

Við tollafgreiðslu vörusendingar fær innflytjandi eða e.a. tollmiðlari upplýsingar um álögð og gjaldfærð gjöld. Tollreikningar á pappír frá gjaldkera Tollstjóra, EDI (CUSTAR) skuldfærslutilkynningar og skuldfærslutilkynningar á vef VEF-tollafgreiðslu og á vef Tollalínu munu endurspegla hvort X1/X2 vörugjöld voru álögð við tollafgreiðslu eða XA/XB vörugjöld. Aðeins eru birtir þeir gjaldalyklar sem notaðir voru við álagningu vörugjaldanna.

 

 

7. Hugbúnaður til tollskýrslugerðar vegna aðflutningsskýrslu

Hér eru nokkur atriði varðandi virkni hugbúnaðar til tollskýrslugerðar:

 

  • Ekki má fylla út upplýsingar um magn sykurs í vöru nema X1 vörugjald (SYK magntölulykill) sé á tollskrárnúmeri í tollskrárlyklum frá Tollstjóra, sbr. einnig tollskránna á vef Tollstjóra.
  • Ekki má fylla út upplýsingar um magn sætuefna í vöru nema X2 vörugjald (SÆT magntölulykill) sé á tollskrárnúmeri í tollskrárlyklum frá Tollstjóra, sbr. einnig tollskránna á vef Tollstjóra
  • Í sömu aðflutningsskýrslunni getur sama tollskrárnúmerið komið fyrir á tveimur eða fleiri vörulínum í skýrslunni. T.d. mismunandi kextegundir, en sem falla í sama tollskrárnúmerið. Þannig getur sama tollskrárnúmerið verið með XA vörugjaldi í einni vörulínu en X1 og X2 gjöldum í annarri vörulínu. Enn fremur getur sama tollskrárnúmerið komið fyrir í fleiri en einni vörulínu þar sem óskað er eftir að greiða X1 og X2 gjald, t.d. vegna mismunandi magns af sykri og sætuefnum eftir tegund af kexi.
  • Það má ekki draga saman í eina vörulínu í aðflutningsskýrslu vörur í sama tollskrárnúmerinu, sem bera ólíkar magnupplýsingar, mismunandi hlutfallslegt magn sykurs og sætuefna í vöru, vegna álagningar X1 og X2 vörugjalda. Þessi regla gildir til viðbótar við þær reglur sem gilt hafa um það hvenær má draga saman vörulínur sama tollskrárnúmers í aðflutningsskýrslu.
  • Magntölulykill sykurs er SYK og magn skal rita í kg með tveimur aukastöfum. Magntölulykill sætuefna er SÆT og magn skal rita í grömmum með tveimur aukastöfum.

 

8. Vefur VEF-tollafgreiðslu

Vefur VEF-tollafgreiðslu fyrir útfyllingu skýrslu og tollafgreiðslu með VEF-aðflutningsskýrslu verður tilbúin fyrir breytta útfyllingu skýrslu vegna X1 og X2 vörugjalda frá og með 1. mars 2013.

 

 

Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði, bæði inn- og útflutningur

Tollskrárlyklar, sem taka gildi 1. mars 2013, verða aðgengilegir hér á vef Tollstjóra frá og með 25. febrúar 2013. Bæði vegna tollskrárlykla inn- og útflutnings. Í þeim tollskrárlyklum munu verða X1 og X2 vörugjaldslyklar á viðkomandi tollskrárnúmerum vegna innflutnings. Að auki er á þau sömu tollskrárnúmer skráðir SYK og/eða SÆT magntölulyklar í viðkomandi svæði tollskrárlykla. Sjá „Færslulýsing - Innflutningur" og „Færsluteikning - Innflutningur" neðarlega á vefsíðu tollskrárlykla á vef Tollstjóra.

 

 

Síðari breyting: Breyting á vörugjaldi og tollskrá með lögum nr. 22/2013

Sjá tilkynningu á vef Tollstjóra þann 19. mars 2013: Breyting á vörugjaldi og tollskrá varðandi sykur og sætuefni og þessi efni viðbætt í matvælum. Lög nr. 22/2013 frá 15. mars 2013. Upplýsingar vegna tollafgreiðslu við inn- og útflutning vara.

 

 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum