Fréttir og tilkynningar


Breytingar á reglum um framtal og skil á virðisaukaskatti

30.4.2024

Ríkisskattstjóri vekur athygli á breytingum sem gerðar voru á ákvæðum reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti.

Varðar breytingin eftirfarandi:

  1. uppgjörstímabil virðisaukaskatts við nýskráningu skattaðila á virðisaukaskattsskrá,
  2. heimild skattaðila til að nota almanaksár sem uppgjörstímabil, og
  3. uppgjör þeirra skattaðila sem nota almanaksár sem uppgjörstímabil við afskráningu af virðisaukaskattsskrá.

Skráning á virðisaukaskattsskrá

Við skráningu á virðisaukaskattsskrá verður aðilum eftirleiðis gert að notast við almenn tveggja mánaða uppgjörstímabil virðisaukaskatts.

Framangreint á þó ekki við um þá sem skráðir eru á landbúnaðarskrá og þá sem skráðir eru að nýju á virðisaukaskattsskrá eftir að hafa verið felldir af skránni með úrskurði ríkisskattstjóra vegna vanskila eða svarleysis, né þá sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá ef aðili sjálfur, eigandi, framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður, sé um félag að ræða, hefur orðið gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir skráningu.

Ársuppgjörstímabil

Uppgjörstímabil skattaðila sem selja virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. á heilu almanaksári munu ekki lengur breytast sjálfkrafa í almanaksár. Skattaðilar sem sjá sér hag í að skila virðisaukaskatti einu sinni á ári verða að sækja um það sérstaklega fyrir 15. febrúar þess almanaksárs sem breytingunni er ætlað að taka til.

Skilyrði fyrir breytingu á uppgjörstímabili virðisaukaskatts er að skattaðili hafi verið skráður á virðisaukaskattsskrá vegna undanfarandi almanaksárs og að virðisaukaskattsskyld velta hans hafi verið minni en 4.000.000 kr. á því ári.

Aðilar sem skráðir eru á landbúnaðarskrá, umboðsmenn erlendra aðila og þeir sem skráðir eru sérstakri eða frjálsri skráningu á virðisaukaskattsskrá eiga ekki rétt á að notast við almanaksár sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts.

Uppgjör ársskilaaðila við afskráningu

Þeir sem eru í ársskilum ber að gera skil á öllum virðisaukaskatti almanaksársins á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils sem starfsemi lýkur á.

Unnið er að uppfærslu á vef Skattsins

Unnið er að uppfærslu leiðbeininga á vef Skattsins sem varða framtal og skil á virðisaukaskatti.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum