Fréttir og tilkynningar


Breytingar á tilvísun CE-merktra fjarskiptatækja við innflutning

23.3.2012

Þann 1. apríl 2012 tekur gildi breyting vegna tilvísunar í leyfislykil sem nefnist í tölvukerfi Tollstjóra, LPS [Leyfi vegna innflutnings á fjarskiptatækjum]. Með breytingunni munu eftirfarandi tollskrárnúmer falla undir leyfislykilinn:

8517.1100; 8517.1200; 8517.1800; 8517.6100; 8517.6200; 8517.6900; 8517.7000; 8525.5001; 8525.5009; 8525.6001; 8525.6009; 8526.9201; 8526.9209.

Fyrir breytingu hafa margir innflytjendur notað skírskotunina „UNDANÞE" í reit 14 á aðflutningsskýrslu, þar sem þeir lýstu yfir undanþágu frá áritunarskyldu fjarskiptatækja. Var þetta fyrirkomulag viðhaft þar sem innflytjendur CE-merktra fjarskiptatækja eru almennt ekki krafðir um áritun við innflutning.

Leiðbeiningar vegna breytingar

Frá 1. apríl 2012 skulu innflytjendur staðfesta að vörur beri CE-merkingu sem falla undir framangreinda tollflokka. Tilvísunin skal gerð með eftirfarandi hætti: Innflytjendur CE-merktra vara setja LPS-CEmerkt í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Með þessum hætti lýsa innflytjendur því yfir að innflutt vara beri CE-merkingu í stað þess að lýsa yfir undanþágu frá áritunarskyldu.

Tollstjóri vekur athygli á að samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, er óheimilt að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 61. gr. sömu laga og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning samkvæmt lögum um fjarskipti.

Nánari upplýsingar

Um innflutning fjarskiptatækja: Póst- og fjarskiptastofnun, sími 510 1500 og á heimasíðu stofnunarinnar http://www.pfs.is


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum