Fréttir og tilkynningar


Breytt afstaða til gildistöku Kínasamningsins

17.11.2014

Túlkun á orðalagi Kínasamningsins leiddi fyrr á árinu til þeirrar niðurstöðu Tollstjóra að vara yrði að hafa verið flutt frá Kína eftir gildistöku samningsins.

Ástæða þessarar túlkunar var sú að leggja þarf fram gilt upprunavottorð samkvæmt viðkomandi fríverslunarsamningi til að vara fái notið fríðindameðferðar en samkvæmt samningnum verða upprunavottorð aðeins gefin út fyrir eða við útflutninginn. Möguleiki er að fá upprunavottorð útgefin eftirá ef gild ástæða er fyrir hendi en ekki var litið á það sem gilda ástæðu að samningurinn hafi ekki verið genginn í gildi við útflutninginn.

Þessi ákvörðun hefur nú verið endurskoðuð með vísan í óskir og væntingar inn- og útflytjanda um að getað notið fríðinda í vöruviðskiptum á grundvelli fríverslunarsamningsins á milli Íslands og Kína þegar frá gildistöku samningsins sem gekk í gildi þann 1.júlí 2014.

Að öllum formskilyrðum uppfylltum munu Íslensk tollyfirvöld taka gild upprunavottorð útgefin afturvirkt eða "ISSUED RETROSPECITIVELY" (skv. 5.mgr. 36.gr. samningsins) þó að vörusendingar hafi verið sendar frá Kína fyrir gildistökuna. Af þessu leiðir að innflytjendur sem tollafgreiddu upprunasendingar frá Kína eftir gildistöku Kínasamningsins, 1.júlí sl., án þess að leggja fram gilda upprunasönnun, geta lagt fram beiðni um leiðréttingu (afgreiðslu 2) að því gefnu að þeir leggi fram gilt upprunavottorð samkvæmt samningnum, útgefið afturvirkt, frá þar tilbærum kínverskum yfirvöldum. Á sama hátt geta íslenskir útflytjendur sem sendu út upprunasendingar til Kína fyrir 1.júlí, tollafgreiddar í Kína eftir 1.júlí, óskað eftir útgáfu upprunavottorðs útgefnu afturvirkt hjá embætti Tollstjóra og látið reyna á endurupptöku í Kína.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum