Breyttar reglur um kaup á tollfrjálsu áfengi
Gerðar hafa verið breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbak, nr. 96/1995. Í breytingunni felst að ferðamenn og aðrir sem njóta tollfríðinda við komu til landsins hafa meiri sveigjanleika við val á kaupum á tollfrjálsu áfengi.
Í stað fyrirframskilgreindra skammta fá ferðamenn nú 6 einingar af áfengi sem þeir geta ráðstafað eins og þeir vilja, eftir skilgreindum einingum. Hver eining getur verið 0,25 l af sterku, 0,75 l af léttu áfengi eða 3 lítrar af bjór.
Lögin voru birt í stjórnartíðindum í dag og taka því gildi á miðnætti 17. júní 2016.
Vefsíður á vef Tollstjóra sem fjalla um tollfríðindi hafa verið uppfærðar.
Með einingu er átt við:
- Hverja 0,25 lítra af sterku áfengi, þ.e. áfengi sem í er meira en 21% af vínanda af rúmmáli.
- Hverja 0,75 lítra af léttvíni, þ.e. áfengi annað en öl sem í er 21% eða minna af vínanda að rúmmáli.
- Hverja 3 lítra af öli sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.
- Hverja 3 lítra af gosvíni, gerjaðri drykkjarvöru eða blöndu gerjaðra drykkjarvara og óáfengra drykkja sem flokkast undir vöruliði 2208 og 2206 enda sé varan að hámarki 6% að styrkleika.
Ferðamenn:
Ferðamenn á leið til landsins mega núna taka með sér 6 einingar af sterku áfengi, léttvíni og/eða öli sem ferðamenn til landsins.
Í þessu felst að ferðamenn hafa nú meiri sveigjanleika þegar kemur að samsetningu kaupa á áfengi í fríverslun. Til skýringa er hægt að setja upp eftirfarandi dæmi:
- Ferðamaður getur tekið 1,5 L af sterku áfengi, ef hann tekur einungis sterkt.
- Taki ferðamaður einungis léttvín er honum heimilt að taka 4,5 Lítra.
- Taki ferðamaður einungis öl er honum heimilt að taka 18 lítra af öli. Sama á við um gosvín, gerjaðar drykkjarvörur eða blöndu slíkra drykkja, enda sé varan að hámarki 6% að styrkleika.
- Taki ferðamaður jafnt úr hverjum þætti eða 2 einingar af sterku, 2 einingar af léttvíni og 2 einingar af öli yrði samsetningin þannig; 0,5 Lítrar af sterku áfengi, 1,5 Lítrar af léttu áfengi og 6 lítra af bjór.
Ferðamaður hefur því 6 einingar, sem skilgreinast eins og að ofan greinir, og getur nýtt sér þær með þeirri samsetningu sem hann vill.
Skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila
Skipverjum er heimilt að taka 11 einingar af áfengi eins og skilgreint er hér að ofan hafi skipverji verið 15 daga eða lengur í ferð. Hafi ferðin verið skemur en 15 dagar er skipverjum heimilt að taka 6 einingar.
Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum, er jafnframt heimilt að taka gjaldfrjálst aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir mega hafa gjaldfrjálst samkvæmt þessum lið.
Flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn
Flugverjum sem hafa verið 15 daga eða lengur í ferð er heimilt að taka 5 einingar skv. ofangreindum viðmiðum. Hafi ferðin varað skemur en 15 daga er þeim heimilt að taka 3 einingar.