Fjarskiptafyrirtæki skylt að afhenda Skattinum fjarskiptagögn

8.4.2025

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp úrskurð um að fjarskiptafyrirtæki sé skylt að láta Skattinum í té gögn og upplýsingar um fjarskiptagögn vegna rannsóknar skattrannsóknarstjóra.

Í úrskurði dómsins er m.a. vísað til þess að skattyfirvöld hafi víðtækar heimildir til gagnaöflunar skv. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði 3. mgr. 89. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022, sbr. 1. mgr. 92. gr. sömu laga standi ekki í vegi fyrir því að krafa Skattsins nái fram að ganga.

Heimildir skattrannsóknarstjóra til aðgangs að gögnum byggi á því að hann fari með sömu skyldur og lögregla til rannsóknar sakamála á afmörkuðu sviði og hefur á grundvelli skattalaga víðtækar heimildir til að afla gagna að uppfylltum sömu skilyrðum og gildir um rannsóknir lögreglu samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2008. 

Sé því rétt að líta svo á að skylda fjarskiptafyrirtækja á grundvelli nefndra ákvæða fjarskiptalaga og laga um meðferð sakamála, til að varðveita og afhenda lögreglu gögn í þágu rannsóknar sakamáls, nái með lögjöfnun einnig til skattrannsóknarstjóra enda liggi fyrir úrskurður dómstóla um að lagaskilyrði standi til þeirrar rannsóknaraðgerðar.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum