Fréttir og tilkynningar


Frestur á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds o.fl.

18.1.2022

Í gærkvöldi, mánudaginn 17. janúar 2022, voru samþykkt á Alþingi lög sem heimila tiltekna frestun á greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds, auk framlengingar á fresti til að sækja um viðspyrnustyrk vegna nóvember 2021.

Lögin hafa ekki fengið númer en þau má sjá hér.

Frestun á greiðslum er þrenns konar:

  • Þeim rekstraraðilum sem frestuðu greiðslu á staðgreiðslu og tryggingagjaldi á árinu 2021 og bar að greiða þá fjárhæð í síðasta lagi á eindaga sem bar upp á 17. janúar 2022 er nú heimilt að fresta greiðslunni aftur, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, sbr. 1. gr. umræddra laga. Sé fallist á frekari frestun skiptist greiðsla þá á sex gjalddaga. Gjalddagar og eindagar verða þá 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022 og 16. janúar og 15. febrúar 2023. Umsóknarfrestur vegna þessarar heimildar er 31. janúar 2022.
  • Þeim rekstraraðilum sem eru með meginstarfsemi í flokki IV skv. 3. gr. eða í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, og uppfylla tiltekin skilyrði, er nú heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á afdreginni staðgreiðslu af launum sem voru/eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á sex gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022 og 16. janúar og 15. febrúar 2023. Umsókn þarf að berast í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Þó skal umsókn vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022.
  • Þeim launagreiðendum sem eru með meginstarfsemi í flokki IV skv. 3. gr. eða í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma veitingastaða vegna sóttvarnaráðstafana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, og uppfylla tiltekin skilyrði, er heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að tveimur greiðslum á staðgreiðslu tryggingagjalds sem voru/eru á gjalddaga 1. janúar 2022 til og með 1. júní 2022. Þeim greiðslum sem frestað er skal skipta á fjóra gjalddaga og skulu gjalddagar og eindagar þeirra greiðslna vera 15. september, 17. október, 15. nóvember og 15. desember 2022. Umsókn þarf að berast í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils. Þó skal umsókn vegna eindaga 17. janúar 2022 hafa borist eigi síðar en 31. janúar 2022.

Unnið er að gerð umsóknarforms sem verður rafrænt í gegnum þjónustusíðu rekstraraðila. Sett verður inn frétt þegar umsóknarformið er tilbúið og þá verður unnt að sækja um frestun á greiðslum.  

Jafnframt kveða umrædd lög á um að heimilt sé að sækja um viðspyrnustyrk vegna starfsemi í nóvember 2021 eigi síðar en 1. mars 2022, en umsóknarfrestur rann út 31. desember sl. samkvæmt fyrri ákvörðunum.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum