Fréttir og tilkynningar


Fríverslunarsamningur við Kína

24.4.2013

Mánudaginn 15. apríl sl. var undirritaður fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína. 

Við gildistöku hans munu tollar falla niður af þeim vörum frá Kína sem undir hann falla, að uppfylltum skilyrðum um uppruna, bein viðskipti og beinan flutning. Hið sama gildir um vörur sem fluttar eru frá Íslandi til Kína. Þó gildir í sumum tilvikum stiglækkandi tollur, sbr. upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins.

Eins og fyrir aðra fríverslunarsamninga geta inn- og útflytjendur lagt fram skírteini til sönnunar uppruna, sem gefið er út af tollyfirvöldum eða yfirlýsingu um uppruna. Hvort tveggja er þó með nokkuð öðru formi en þekkist í öðrum fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að. Sniðmát verða birt á vef Tollstjóra.

Enn er óljóst hvenær samningurinn mun taka gildi en líkt og með aðra alþjóðasamninga sem gerðir eru þarf að lokinni undirritun fríverslunarsamningsins að leita heimildar Alþingis til að fullgilda hann. Gera má ráð fyrir að tillaga þess efnis verði lögð fyrir Alþingi á komandi hausti. Að lokinni fullgildingu samningsins hér á landi verður Kínverjum send staðfesting þess efnis. Kínverska ríkisstjórnin mun einnig þurfa að ljúka nauðsynlegri lagalegri málsmeðferð til að staðfesta samninginn. Samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamningsins tekur hann gildi 60 dögum eftir að samningsaðilar hafa skipst á skriflegum tilkynningum um að nauðsynlegri málsmeðferð innanlands hafi verið lokið. Vakin verður athygli á því opinberlega þegar samningurinn tekur gildi.

Frekari upplýsingar um samninginn er að finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum