Fréttir og tilkynningar


Fyrirsvarsmenn einkahlutafélags úthlutuðu sér einbýlishúsi endurgjaldslaust

30.3.2021

Héraðsdómur Reykjaness í máli nr. 2293/2020, hefur dæmt E og V til skilorðsbundinnar fangelsisvistar og til þess að greiða samtals 76.5 milljóna kr. í sekt, auk málskostnaðar, vegna brota á lögum um tekjuskatt og almennum hegningarlögum.

Ákært var fyrir skil á röngum skattframtölum vegna tekjuársins 2014 og peningaþvætti, en ákærðu, sem voru sameiginlegir eigendur og fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins X, töldu ekki fram tekjur sem til voru komnar vegna ólögmætrar úthlutunar úr félaginu sem fólst í að fasteign að virði 85.000.000 kr. var afsalað frá félaginu til þeirra beggja án endurgjalds. Með þessu vanframtöldu ákærðu tekju- og útsvarsstofn sinn að fjárhæð 42.500.000 kr. hvor um sig. Lagt var til grundvallar í málinu að þegar félagið afsalaði umræddri fasteign hefði félagið ekki skuldað ákærðu neina þá fjárhæð sem nálgast gæti kaupverð eignarinnar. Formlega hefði skuld félagsins við ákærðu ekki verið til, líkt og haldið hafði verið fram í málinu af hálfu þeirra. Við úrlausn málsins var horft til opinberra gagna sem lágu fyrir, t.a.m. að skuldarinnar hefði ekki verið getið á skattframtali E, engin samtímagögn hefðu legið fyrir um möguleg skuldaraskipti og ekkert hefði komið fram um að borgað hefði verið af lánunum. Yrði að meta málavexti þannig að með þeim hætti sem ákærðu hefðu staðið að fasteignaviðskiptunum, þar sem hvergi yrði ráðið að greiðsla hefði komið fyrir eignina sem svarað gæti til kaupverðs væri ekki hægt að leggja til grundvallar að fyrir eignina hefði í raun komið endurgjald þegar ákærðu ráðstöfuðu henni til sín árið 2014. Hefði þeim því borið að færa skattframtal sitt vegna ársins 2014 í samræmi við þetta og voru þær því sakfelldar.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum