Fréttir og tilkynningar


Fyrsta greiðsla barnabóta ársins 2024

29.1.2024

Fyrsta greiðsla barnabóta á árinu 2024 verður fimmtudaginn 1. febrúar. Forsendur fyrir útreikningi barnabóta hvers og eins er að finna á þjónustusíðu Skattsins undir flipanum samskipti.

Barnabætur eru greiddar inn á reikning sem skráður er á þjónustusíðu Skattsins eða hjá Innheimtumanni. Ef engar upplýsingar um bankareikning eru skráðar, eða breyta þarf fyrirliggjandi reikningsupplýsingum, má skrá bankaupplýsingar á þjónustuvef Skattsins.

Forsendur útreiknings barnabóta

Fyrirframgreiðsla barnabóta nemur 50% af áætluðum barnabótum ársins og greiðist með tveimur jöfnum greiðslum, 1. febrúar og 1. maí. Miðað er við fjölskyldustöðu samkvæmt Þjóðskrá eins og hún er 31. desember árið á undan.

Við útreikning á skerðingu er miðað við upplýsingar um tekjur í staðgreiðslu að viðbættum upplýsingum um tekjur utan staðgreiðslu af framtali. Viðmiðunartímabil tekna í staðgreiðslu er frá nóvember til nóvember og tekjur utan staðgreiðslu eru teknar af síðasta skattframtali.

Óska eftir leiðréttingu á fyrirframgreiddum barnabótum

Séu aðstæður einstaklings aðrar en forsendur útreiknings gera ráð fyrir má óska eftir leiðréttingu á fyrirframgreiddum barnabótum. Algengar breytingar á högum sem geta gefið tilefni til leiðréttingar á fjárhæð barnabóta í fyrirframgreiðslu eru m.a.:

  • Tekjur
  • Skilnaður/samvistarslit
  • Óskráð sambúð
  • Ný sambúð
  • Maki búsettur og/eða starfar erlendis
Sótt er um leiðréttingu með því að fylla út og skila til Skattsins eyðublaði RSK 3.18 í síðasta lagi 28. febrúar.

Þau sem ekki fá barnabætur sjálfkrafa í fyrirframgreiðslu

Þá er einnig hópur fólks sem ekki fær sjálfkrafa útreikning á fyrirframgreiðslu barnabóta en getur sótt um leiðréttingu með eyðublaði RSK 3.18. Ástæður þess geta verið m.a.:

  • Námsmenn erlendis
  • Framtali fyrra árs ekki skilað inn
  • Flutningur milli landa
  • Aðsetur skráð erlendis
  • Hjón ekki samvistum
  • Hjúskaparstaða óþekkt m.v. skráningu í Þjóðskrá

Sækja þarf um leiðréttingu með því að fylla út og skila til Skattsins eyðublaði RSK 3.18 í síðasta lagi 28. febrúar n.k.

Sé óskað eftir leiðréttingu verður leiðrétt fjárhæð barnabóta greidd út þegar beiðni hefur verið tekin til afgreiðslu. Beiðnir eru afgreiddar eins fljótt og auðið er eftir að þær berast.

Barnabætur foreldra barna með skipta búsetu

Foreldrar sem semja um skipta búsetu barna hjá sýslumanni geta hvort um sig átt rétt á barnabótum.

Barnabæturnar reiknast sjálfkrafa til beggja foreldra svo lengi sem samningur um skipta búsetu barns liggi fyrir hjá sýslumanni í árslok. Ekki þarf að sækja um barnabæturnar til Skattsins.

Nánari upplýsingar um barnabætur

Ítarefni

Eyðublað RSK 3.18

Nánari upplýsingar um barnabætur

Reiknivél barnabóta


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum