Fréttir og tilkynningar


Gistináttaskattur tekinn upp að nýju

21.12.2023

Gistináttaskattur kemur aftur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2024. Skatturinn var afnumin tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Frá áramótum verður hann lagður á að nýju, þó í nokkuð breyttri mynd.

Gistináttaskattur er lagður á gistingu sem er seld til skemmri tíma t.d. á hótelum, farfuglaheimilum og tjaldsvæðum. Framvegis mun gistináttaskattur einnig taka til gistingar um borð í skemmtiferðaskipum. Fjárhæðir skattsins hafa tekið breytingum og eru nú þrepaskiptar eftir tegund seldrar gistiaðstöðu.

Fjárhæð skattsins:

Fyrir sölu á gistiaðstöðu skal frá áramótum innheimta gistináttaskatt sem hér segir:

  • Hótel, gistiheimili og samskonar gististaðir - 600 kr.
  • Tjaldstæði og vegna stæða fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi - 300 kr.
  • Fyrir gistiaðstöðu um borð í skemmtiferðaskipi á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins – 1.000 kr.

Ef seljandi gistiþjónustu er virðisaukaskattsskyldur myndar gistináttaskatturinn jafnframt stofn til virðisaukaskatts.

Uppgjör gistináttaskatts

Allur gistináttaskattur er nú gerður upp á tveggja mánaða fresti hjá öllum gjaldskyldum aðilum.

Skemmtiferðaskip skulu innheimta gistináttaskatt þær nætur sem það er innan tollsvæðis Íslands og er gjalddagi þegar að skip yfirgefur tollsvæðið.

Skráning á gistináttaskattsskrá

Endurskráning

Þeir aðilar sem voru á gistináttaskattsskrá áður en hann var afnuminn tímabundið þurfa að skrá sig á skrána á nýjan leik.

Skráning verður gerð með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins. Unnið er að því að opna fyrir skráninguna og verður tilkynnt sérstaklega á vef Skattsins þegar hún opnar.

Nýskráning

Nýir rekstraraðilar sem skattskyldir eru samkvæmt lögum um gistináttaskatt skulu senda Skattinum tilkynningu um starfsemi sína og öðlast þannig skráningu á gistináttaskattsskrá.

Skráning verður gerð með rafrænum hætti á þjónustuvef Skattsins. Unnið er að því að opna fyrir skráninguna og verður tilkynnt sérstaklega á vef Skattsins þegar hún opnar.

Sala gistináttaeiningar fyrir áramót undanþegin gistináttaskatti

Gisting sem seld hefur verið fyrir áramót en er afhent á árinu 2024 eða síðar er undanþegin gistináttaskatti hafi hún verið fullgreidd og sölureikningur gefinn út.

Ekki nægir að reikningur, eða kvittun, hafi verið gefinn út vegna hluta af söluverði gistingar.

Nánari upplýsingar um gistináttaskatt


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum