Fréttir og tilkynningar


Hæstiréttur staðfestir peningaþvættisdóm þar sem skattalagabrot var fyrnt

25.3.2021

Meirihluti Hæstaréttar hefur staðfest sakfellingu Júlíusar Vífils Ingvarssonar vegna peningaþvættis samkvæmt dómi Landsréttar frá 8. maí 2020 en stytt skilorðsbundna fangelsisrefsingu úr tíu mánuðum í sex.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að óumdeilt væri að skattalagabrot hans hefðu verið fyrnd og að ávinningur brotanna hefði fallið til fyrir þann tíma er sjálfsþvætti hefði verið gert refsivert. Aftur á móti hefði hann ráðstafað ávinningnum inn á erlendan bankareikning sem hann væri rétthafi að eftir að sjálfsþvætti hefði verið gert refsivert og því hefðu ákvæði um bann við afturvirkri beitingu refsilaga ekki komið til álita. Hæstiréttur fjallaði um forsögu og tilgang 264. gr. almennra hegningarlaga og vísaði til þeirra hagsmuna sem ákvæðinu væri ætlað að vernda. Brotið, sem Júlíusi Vífli væri gefið að sök, væri ástandsbrot og fyrndist á tíu árum frá því að ástandi lyki, þ.e. frá því að hann hefði millifært peningana á árinu 2014. Einn dómari af fimm skilaði sératkvæði þar sem hann taldi að brotið hefði verið fyrnt og að sýkna hefði átt Júlíus Vífil.

Dómur Hæstaréttar  

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum