Fréttir og tilkynningar


Hundruð ólöglegra póstsendinga haldlagðar

11.11.2016

Rúmlega 200 mál hafa komið upp það sem af er árinu þar sem tollverðir hafa stöðvað póstsendingar sem innihéldu fíkniefni, stera og ávanabindandi lyf.

Til októberloka eru slík mál orðin samtals 214 en voru 221 talsins allt árið 2014. Það ár var metár í haldlagningu slíkra sendinga.

Í langflestum tilfellum er um minni háttar mál að ræða, en stærri innan um. Má þar nefna póstsendingu sem tollverðir stöðvuðu í síðasta mánuði og reyndist hún innihalda tæplega kíló af metamfetamíni. Hafði efnið verið falið í handsápum en það dugði ekki til.

Tollstjóri hefur kært ofangreind mál sem upp hafa komið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn þeirra.

Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig má koma ábendingum um smygl inn á símsvara 5528030 hjá embætti Tollstjóra.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum