Innflytjendur sendibíla kunna að eiga inneign
Hinn 24. janúar 2018 felldi yfirskattanefnd úrskurði í tveimur málum (nr. 6/2018 og 7/2018) þar sem deilt var um tollflokkun og álagningu gjalda á bifreiðar af gerðinni Ford Transit og Mercedes-Benz Sprinter og var niðurstaðan sú að innflytjendur áttu rétt á endurgreiðslu hluta greiddra vörugjalda.
Líklegt er að undanfarin ár hafi verið flutt inn ökutæki sem telja má sambærileg þeim bifreiðum sem deilt var um í úrskurðum yfirskattanefndar. Upplýsingar um útlit og útbúnað þeirra við innflutning liggja aftur á móti ekki fyrir hjá tollyfirvöldum.
Af þeim sökum skorar Tollstjóri á þá innflytjendur sem hafa flutt inn bifreiðar sem mögulega uppfylla þau skilyrði sem fram koma í úrskurðum yfirskattanefndar, að senda embætti Tollstjóra þau gögn sem þeir kunna að hafa undir höndum sem geta sýnt fram á útlit og útbúnað bifreiðanna við innflutning, innan tveggja mánaða frá dagsetningu þessa bréfs.