Fréttir og tilkynningar


Könnun á stafvæðingu íslenskra fyrirtækja

12.3.2024

Forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja telja mikinn ávinning af því að nota rafræna reikninga í stað pappírsreikninga og PDF-skjala. Tímasparnaður, minni kostnaður, aukin sjálfvirknivæðing, sveigjanleiki og öryggi eru meðal helstu kosta sem nefndir eru í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Nordic Smart Government & Business.

Könnunin var gerð síðastliðið haust í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Tilgangur hennar var að mæla stafvæðingu í norrænum fyrirtækjum.

Í könnuninni var m.a. spurt um notkun á viðskiptakerfum og stöðluðum rafrænum viðskiptaskjölum, sem er sá grunnur sem stafrænt vistkerfi Nordic Smart Government & Business byggir á. Auk þess var spurt um aðgengi að upplýsingum um fyrirtæki, notkun snjallþjónustu og rauntímagagna.

Viðskiptakerfi, svo sem bókhalds- eða fjárhagskerfi, eru útbreidd á Íslandi og nota 83% fyrirtækja slík kerfi samkvæmt könnuninni. Rúmlega 40% fyrirtækja nota eða hafa í hyggju að nota snjallþjónustu og rauntímagögn til að bæta vinnuferla sína og áætla 15% þeirra að sparnaður geti orðið meiri en 10 þúsund evrur fram til ársins 2025. Þá telja 74% fyrirtækja mikinn ávinning felast í því að hafa aðgang að opinberum upplýsingum um fyrirtæki.

Þjónusta Skattsins og Fjársýslunnar

Nordic Smart Government & Business hefur með góðum árangri prófað að senda stöðluð rafræn viðskiptaskjöl, þ.e. rafræna vörulista, pantanir, reikninga og kvittanir, í gegnum Peppol viðskiptanetið í viðskiptum milli Norðurlandanna en Ísland er aðili að OpenPeppol. Fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref í notkun rafrænna skjala geta nálgast hagnýtar upplýsingar á vefsvæði verkefnisins. Frekari upplýsingar og aðstoð veitir Fjársýsla ríkisins.

Nordic Smart Government & Business hefur einnig smíðað vefþjónustu (API) til að bæta aðgengi að grunnupplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Í fyrstu má þar nálgast upplýsingar um nafn, kennitölu, stöðu, skráningardagsetningu, heimilisfang, rekstrarform og skráningaraðila fyrir öll fyrirtæki á Norðurlöndunum. Í vefþjónustunni á Íslandi, sem Skatturinn áætlar að gefa út í næsta mánuði, verður einnig hægt að nálgast skráð virðisaukaskattsnúmer fyrirtækja, hvoru tveggja opin númer og lokuð.

Lesa meira um niðurstöður könnunarinnar


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum