Konur og kvár leggja niður störf hjá Skattinum
Opið verður hjá Skattinum á morgun 24. október venju samkvæmt og nauðsynleg lágmarksþjónusta tryggð. Búast má við miklum hnökrum á þjónustu vegna fjarveru kvenna og kvára.
Upplýsingaver verður opið en verður fáliðað og má búast við skertri þjónustu. Afgreiðslur um land allt verða opnar, nema í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.
Skatturinn leggur ríka áherslu á jafnréttismál. Það sýna niðurstöður jafnlaunavottunar sem nýlega var endurnýjuð. Við segjum stolt frá því að launamunur kynjanna hjá Skattinum mælist aðeins 0,4% þar sem karlar eru hærri. Það þykja góðar niðurstöður og er bæting frá fyrra ári þegar munurinn mældist tæplega eitt prósent.
Þá hlaut Skatturinn nýlega viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fjórða árið í röð, en sú viðurkenning er veitt fyrirtækjum og stofnunum með jöfn kynjahlutföll í æðsta lagi stjórnenda.
Okkur hjá Skattinum þykir mikilvægt að styðja við konur og kvár sem eiga enn undir högg að sækja og styðjum því öll sem leggja niður störf á morgun og leggja baráttunni um jafnrétti lið.