Króatía verður aðildarríki Evrópusambandsins
Embætti Tollstjóra vekur athygli inn- og útflytjenda á því að Króatía mun þann 1. júlí 2013 verða aðildarríki Evrópusambandsins (ESB).
Um leið fellur úr gildi fríverslunarsamningur EFTA og Króatíu sem og tvíhliða samningur Íslands og Króatíu hvað varðar fríverslun með landbúnaðarvörur. R kódi fyrir tegund tolls skv. þessum samningum fellur því úr gildi, sbr. reitur 33 í aðflutningsskýrslu, ebl. E-1.1. Frá og með 1. júlí nk. munu þar af leiðandi þeir fríverslunarsamningar sem gerðir hafa verið við ESB gilda í viðskiptum við Króatíu. Þegar þeir eiga við er E kódi fyrir tegund tolls skráður í reit 33 í aðflutningsskýrslu og landakódi Króatíu, HR kódi, skráður í reit 34 fyrir upprunaland. Í tilteknum tilvikum getur átt að skrá B kóda fyrir tegund tolls í stað E kóda, skv. sérstökum samningum á milli ESB og Íslands.
Upprunaskírteini sem gefin hafa verið út fyrir vörur sem sendar eru til Króatíu, hvort sem er við tollafgreiðslu eða eftirá í samræmi við viðeigandi ákvæði, og tollafgreiddar fyrir 1. júlí nk., munu halda gildi sínu, að því tilskyldu að slíkar upprunasannanir verði lagðar fyrir tollyfirvöld í Króatíu innan fjögurra mánaða frá og með 1. júlí nk.