Fréttir og tilkynningar


Lagabreytingar um áramót - bifreiðar og ökutæki

12.2.2018

Um áramótin gengu í gildi lög nr. 96/2017 um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018. Í lögunum eru gerðar breytingar á lögum er varða álagningu gjalda og hér fyrir neðan er að finna dæmi um breytingar sem varða starfsemi Tollstjóra.

Undanþága vegna álagningar vörugjalds á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum er framlengd um eitt ár, eða út árið 2018. Álagningin mun fara samkvæmt undanþáguflokki (0–30%) 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald á ökutæki, eldsneyti o.fl., út þetta ár en ekki samkvæmt aðalflokki (0–65%) eins og orðið hefði að óbreyttu. Hámarks lækkun vörugjalds á slíkar bifreiðar verður 250.000 kr. árið 2018.

Í lögunum er tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða framlengd um þrjú ár, eða til loka árs 2020.

Ennfremur er í ákvæðinu sett fjöldatakmörkun á niðurfellingar skv. ákvæðinu. Í því felst að þrátt fyrir að það sé enn í gildi, t.d. á árinu 2019, getur komið til þess að réttur til virðisaukaskattsívilnunar falli niður hafi tiltekinn fjöldi bifreiða verið skráður á ökutækjaskrá. Með skráningu á ökutækjaskrá er átt við nýskráningu skv. 7. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja. Fjöldatakmörkunin er þríþætt. Í fyrsta lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur rafmagnsbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá. Í öðru lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur vetnisbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá. Í þriðja lagi getur komið til þess að innflytjendur og kaupendur tengiltvinnbifreiða fái ekki notið ívilnunar samkvæmt ákvæðinu, þrátt fyrir að gildistími þess sé ekki liðinn, hafi 10.000 slíkar bifreiðar verið skráðar á ökutækjaskrá.

Lögin í heild sinni má finna hér:

http://www.althingi.is/altext/148/s/0133.html


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum