Fréttir og tilkynningar


Lagabreytingar varðandi tollamál

20.7.2022

Við frestun þingfundar þann 16. júní voru samþykktar nokkrar breytingar á lögum er varða tollamál og innflutning sem taka gildi í sumar.

Breytingar voru gerðar á virðisaukaskattslögum nr. 50/1988 með lögum nr. 33/2022 varðandi endurgreiðslur til björgunarsveita, ívilnanir á virðisaukaskatti vegna rafmagnsbifreiða og niðurfellingar virðisaukaskatts vegna innflutnings á léttum bifhjóli í flokki 1. Breytingarnar hafa m.a. í för með sér að endurgreiða skal virðisaukaskatt af vinnu við breytingu ökutækja björgunarsveita, hámarks upphæð niðurfellingar virðisaukaskatt af rafmagnsbifreiðum breytist um áramótin næstkomandi ásamt því að fjöldatakmörkun fer úr 15.000 í 20.000 og loks er heimilt að fella niður virðisaukaskatt af óskráðum, léttum bifhjólum í flokki 1. Vakin er sérstök athygli á því að Skatturinn uppfærir reglulega stöðuna á innflutningi á rafmagnsbifreiðum til Íslands á heimasíðu sinni.

Einnig var gerð breyting á 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 þess efnis að allar vörur upprunnar í Úkraínu eru tollfrjálsar til og með 31. maí 2023, sbr. lög nr. 54/2022. Stofnaður hefur verið sérstakur tollur með lykilinn YU fyrir tollfrelsi vara sem upprunnar eru í Úkraínu en við ákvörðun um uppruna er tekið mið af ákvæðum fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem tók gildi 1. júní 2012.

Loks voru gerðar breytingar á gildissviði laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur nr. 87/2018 í þeim tilgangi að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum og fella það undir sömu reglur og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, sbr. lög nr. 56/2022. Nikótínvörur, t.d. púðar, hafa því verið felldar undir ákvæði laga nr. 87/2018 um eftirlit með innflutningi, dreifingu og sölu til þess að tryggja viðhlítandi öryggi varanna á markaði.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum