Fréttir og tilkynningar


Landsréttur vísar málum Sigur Rósar til efnismeðferðar í héraðsdómi

2.3.2020

Landsréttur hefur úrskurðað að héraðsdómur Reykjavíkur taki skattamál meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar til efnislegrar meðferðar en þeim málum hafði verið vísað frá dómi 4. október 2019, með tilvísun til 4. gr. 7 samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Í 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu segir að enginn skuli sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.

Endurákvörðun ríkisskattstjóra á sköttum ákærðu og álagning 25% álags lauk með úrskurði ríkisskattstjóra 12. desember 2018, sem þeir undu, en alls námu vangreiddir skattar tæpum 200 milljónum króna.

Héraðssaksóknari gaf út ákæru 28. febrúar 2019 og var málið þingfest 3. mars 2019. Í dómi landsréttar frá 28. febrúar 2020 segir að mannréttindadómstóll Evrópu hafi kveðið upp fjölda dóma á grundvelli þessa ákvæðis en dómaframkvæmdin sem lýtur að þessu álitaefni hafi tekið breytingum og sé atviksbundin. Varðandi tvö helstu ágreiningsatriðin, þ.e. efnislega samþættingu og samþættingu í tíma, komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að samþætting mála að efni og í tíma hjá skattyfirvöldum og ákæruvaldi og dómstólum hafi verið til staðar. Þess vegna beri héraðsdómi að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Úrskurður Landsréttar 28. febrúar 2020 í máli nr. 684/2019

Úrskurður Landsréttar 28. febrúar 2020 í máli nr. 685/2019

Úrskurður Landsréttar 28. febrúar 2020 í máli nr. 686/2019

Úrskurður Landsréttar 28. febrúar2020 í máli nr. 687/2019


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum