Fréttir og tilkynningar


Landsréttur dæmir 35 milljón króna sekt vegna brota á lögum um virðisaukaskatt og bókhald

30.12.2020

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um skilorðsbundið fangelsi og rúmlega 35 milljón króna sekt vegna brota á lögum bókhald og virðisaukaskatt, en vanframtalinn virðisaukaskattur nam tæpum 19 milljónum króna.

Ákærði hafði krafist frávísunar á grundvelli þess að meðferð málsins bryti gegn mannréttindasáttmála Evrópu um endurtekna málsmeðferð (ne bis in idem), hann hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar þegar haldið var áfram með málið gegn honum persónulega þegar fallið hefði verið frá saksókn á hendur félagi hans, málarekstur hefði tekið of langan tíma, og ekki hefði verið tekið tillit til innborgana og skuldajöfnunar vegna inneigna milli tímabila. Landsréttur hafnaði frávísunarkröfum. Þá var ekki fallist á sýknukröfu ákærða um að þær refsiheimildir skattalaga sem um ræddi tækju ekki til fyrirsvarsmanna félaga. Landsréttur tók fram að ákvæði skattalaga væru skýr um að refsiákvæðum þeirra verði beitt gagnvart fyrirsvarsmanni lögaðila vegna brota sem framin eru í starfsemi lögaðila, og vísaði til fordæma Hæstaréttar varðandi það. Þá kom fram í dómi Landsréttar að síðar tilkomnar innborganir leysi menn ekki undan refsingu enda væru brotin fullframin þegar opinber gjöld væru ekki greidd á réttum tíma og leiðréttingarskýrslur og lagfæringar á bókhaldi eftir á gætu heldur ekki bætt fyrir stórfelld brotin. Landsréttur féllst hins vegar á að tafir hefðu orðið á meðferð málsins í héraði. Var ákærði dæmdur til 35,4 milljóna króna sektar og skilorðsbundins fangelsis.

Dómur Landsréttar 4. desember 2020 í máli nr. 385/2019


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum