Fréttir og tilkynningar


Landsréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms um skyldu innlends aðila til að afhenda skattrannsóknar­stjóra gögn varðandi erlent félag

1.2.2021

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. desember 2020 þar sem hafnað var kröfum X Ltd., félags skráðu í lágskattaríkinu Belís, um að úrskurðað yrði að beiðni skattrannsóknarstjóra ríkisins um afhendingu gagna frá Y ehf., sem beiðnin beindist að, og vörðuðu X Ltd. væri ólögmæt.

Var jafnframt hafnað þeirri kröfu að skattrannsóknarstjóra yrði gert að skila gögnum sem skattrannsóknarstjóri hefði fengið afhent og sem vörðuðu X Ltd. Í úrskurði Landsréttar var meðal annars vísað til þess að 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, veitti skattrannsóknarstjóra víðtæka heimild til að afla gagna og upplýsinga í þágu rannsóknar á tilteknu máli á starfssviði embættisins meðal annars hjá öðrum en þeim sem væri grunaður um að hafa brotið gegn skattalögum, þ.e. frá þriðja aðila. Skattrannsóknarstjóri hefði rúmt mat um það hvenær slíkra upplýsinga væri þörf. Þá vísaði Landsréttur til þess að umrædd gögn tengdust rannsókn á ætluðum brotum Z hf. og var fallist á að gögnin kynnu að geyma upplýsingar sem hefðu sönnunargildi um ætluð brot Z hf. og að rannsóknarhagsmunir hefði krafist þess að þau yrðu látin skattrannsóknarstjóra í té á grundvelli 1. mgr. 94. gr. tekjuskattslaga. Því hefði Y ehf. verið skylt að verða við beiðni skattrannsóknarstjóra.

Úrskurður Landsréttar 


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum