Fréttir og tilkynningar


Lokunarstyrkur og fleiri styrkir

4.3.2022

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um lokunarstyrk vegna janúar 2022. Umsóknir um veitingastyrk og framhald viðspyrnustyrkja er í smíðum.

Lokunarstyrkur 7

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um lokunarstyrk 7 vegna stöðvunar á starfsemi í tengslum við sóttvarnaraðgerðir á tímabilinu 15. janúar til og með 28. janúar 2022. Sú starfsemi sem um ræðir eru skemmtistaðir, krár og rekstur spilakassa og spilasala.

Eins og áður er sótt um á þjónustuvef Skattsins. Ef umsækjandi um lokunarstyrk er félag (lögaðili) skráir prókúruhafi sig inn á sína þjónustusíðu og fer þannig inn á svæði félagsins. Sjálfstætt starfandi einstaklingur fer inn í umsóknina í gegnum sína eigin þjónustusíðu. Leiðbeiningar við umsókn eru á COVID-19 síðum Skattsins en umsóknin er alveg sambærileg við umsóknir um fyrri lokunarstyrki.

Umsóknir um lokunarstyrk 7 skulu hafa borist eigi síðar en 30. júní 2022.

Veitingastyrkir

Eins og fram kemur í frétt á vef Skattsins 9. febrúar sl. hafa verið samþykkt lög á Alþingi um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem sættu takmörkunum á opnunartíma vegna sóttvarnarráðstafana.

Styrkirnir eru ætlaðir þeim sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna takmarkana á opnunartíma veitingastaða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Uppfyllta þarf tiltekin skilyrði til að eiga rétt á umræddum styrk. Tímabilið sem um ræðir eru almanaksmánuðirnir nóvember 2021 til og með mars 2022.

Unnið er að gerð rafrænnar umsóknar og gert ráð fyrir að því ljúki fyrri hluta marsmánaðar. Tilkynnt verður þegar opnar fyrir umsóknir.

Framhald viðspyrnustyrkja

Nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um framhald viðspyrnustyrkja. Þar er gert ráð fyrir annars vegar að hægt verði að sækja um viðspyrnustyrki frá ágúst til desember 2021 og hins vegar frá 1. desember 2021 til og með mars 2022. Styrkirnir eru ætlaðir þeim rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og að gerða stjórnvalda til að verjast henni.

Unnið er að gerð rafrænnar umsóknar en það mun taka nokkurn tíma. Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir umsóknir í lok mars eða byrjun apríl. Tilkynnt verður þegar unnt verður að sækja um.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum