Fréttir og tilkynningar


Mannréttadómstóll Evrópu dæmir íslenska ríkið til að greiða manni bætur fyrir að refsa honum tvisvar fyrir sama skattalagabrotið.

18.2.2019

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur með dómi, upp kveðnum 12. febrúar sl., dæmt íslenska ríkið til að greiða manni bætur, þar sem refsidómur yfir honum vegna skattalagabrots var talinn brjóta í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um bann við endurtekinni málsmeðferð í sakamálum.

Mannréttindadómstóll Evrópu gerði íslenska ríkinu að greiða viðkomandi tæplega 700.000 kr. í miskabætur og 1,4 milljónir kr. í málskostnað, en bótakröfu upp á 13,5 milljónir kr. var vísað frá.

Maðurinn hafði með héraðsdómi árið 2013 verið dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 2 ára og til að greiða rúmar 24 milljónir kr. í sekt fyrir brot á skattalögum. Hann hafði ekki talið fram fjármagnstekjur gjaldárið 2007 vegna tekjuársins 2006 að upphæð rúmlega 120 milljónir kr. og var vangreiddur fjármagnstekjuskattur því rúmlega 12 milljónir kr.

Hæstiréttur staðfesti dóminn árið 2014 en sektarfjárhæðin var lækkuð í 21 milljón kr., með vísan til þess að við sektarákvarðanir bæri að taka tillit til skatts af álagi á endurákvörðun skattstofns, og kæmi 8 mánaða fangelsi ef sektin yrði ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Ríkisskattstjóri hafði í nóvember 2011 endurákvarðað fjármagnstekjur mannsins með hækkun stofns sem nam vantöldum tekjum og bætt við 25% álagi. Formleg rannsókn sérstaks saksóknara hófst ekki fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðar ríkisskattstjóra. Málinu var því lokið hjá skattyfirvöldum þegar rannsóknin hófst og var ákæra ekki gefin út fyrr en í október 2012. Eru það helstu ástæður þess að málsmeðferðin var talin andstæð 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrir skömmu var íslenska ríkið hins vegar sýknað í sambærilegu máli fyrir Mannréttindadómstólnum. Munurinn á þessum málum er einkum sá að í sýknutilvikinu fór meðferð málsins hjá skattyfirvöldum og lögreglu fram í nægjanlegri samfellu að mati dómsins.

Dómur Mannréttindadómstólsins nr. 52623/14

Dómur Hæstaréttar nr. 416/2013


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum