Fréttir og tilkynningar


Mannréttinda­­dómstóll Evrópu sýknar íslenska ríkið af kröfu um ómerkingu dóms í skattsvikamáli

31.1.2019

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sýknað íslenska ríkið af kæru einstaklings sem taldi að brotið hefði verið á réttindum hans við meðferð máls hans hjá skattyfirvöldum og hjá lögreglu og dómstólum.

Taldi einstaklingurinn að sér hefði verið refsað tvisvar fyrir sama brot, með greiðslu álags á skattstofn og greiðslu sekta fyrir dómstólum, sem færi gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. Einstaklingurinn sem um ræðir var í Hæstarétti dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar fyrir að telja ekki fram greiðslur frá félagi sem viðkomandi átti og var skráð á Bahamaeyjum. Skattaundanskotin uppgötvuðust þegar skattayfirvöld skoðuðu notkun erlendra greiðslukorta hér á landi. Málið var til meðferðar hjá skattyfirvöldum á árunum 2009 til 2012 þegar yfirskattanefnd kvað upp úrskurð. Málinu var vísað til sakamálarannsóknar hjá sérstökum saksóknara og viðkomandi sakfelldur í Héraðsdómi 2013 og í Hæstarétti í ársbyrjun 2014.

Mannréttindadómstólinn hafnaði því að umræddur einstaklingur hefði sætt óréttlátri málsmeðferð og benti á að meðferð málsins hjá skattyfirvöldum annars vegar og hjá lögreglu og dómstólum hins vegar hefði verið nauðsynlega samþætt í tíma og að efni, hefði meðferð málsins hjá skattyfirvöldum og lögreglu farið fram samhliða, byggt á gögnum sem stofnanirnar hefðu skipst á og miðað að því að upplýsa undanskot og röng skil á skattframtali. Tók dómurinn fram að lengd málsmeðferðartíma hefði að hluta til verið á ábyrgð málsaðila þar sem hann hefði ekki verið samvinnuþýður og að auki hefði óskað eftir að málsmeðferð yrði frestað þar til úrskurður yfirskattanefndar lægi fyrir.

Dómur Mannréttindadómstólsins nr. 22779/14

Dómur Hæstaréttar nr. 323/2013


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum