Fréttir og tilkynningar


Metfjöldi fíkniefna – og sterasendinga tekinn í tollpósti

10.1.2017

Á nýliðnu ári 2016 komu upp 260 mál í kjölfar póstsendinga sem tollverðir stöðvuðu og reyndust innihalda fíkniefni eða stera.

Er þetta mestur fjöldi mála sem sendur hefur verið til lögreglu á einu ári. Af þessu voru 214 fíkniefnamál, 27 steramál og 19 lyfjamál. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór með rannsókn málanna.

Undirstrikað skal að um bráðabirgðatölur er að ræða.

Stærstu málin voru steramál sem upp kom í janúar í sendingu sem hafði að geyma 15.394 töflur og 1635 millilítra, kókaínmál í mars, þar sem um var að ræða 31,98 grömm, steramál einnig í mars í sendingu sem innihélt 199,51 grömm, metamfetamínmál í október sem varðaði smygl á 983,47 grömmum, e-töflumál í október í sendingu sem innihélt 208 töflur, amfetamínmál í nóvember, sem varðaði smygl á ríflega fjórum kílóum og loks amfetamínsending í nóvember, sem varðaði tæp 500 grömm. Síðastnefnda sendingin átti að fara til Spánar en hafnaði fyrir mistök hér og var stöðvuð.

Í heildartölunni 260 var einnig um að ræða nokkur steramál um og yfir 100 grömm ásamt fjölda ávanabindandi lyfja í töfluformi.

Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig má koma ábendingum um smygl inn á símsvara 5528030 hjá embætti Tollstjóra.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum