Fréttir og tilkynningar


Móttaka gjafa og sendinga að utan fyrir jólin

18.11.2022

Senn líður að jólum sem þýðir að til landsins fara að streyma pakkar og pinklar. Þar eru bæði gjafir frá vinum og ættingjum en líka vörur sem keyptar eru í erlendum vefverslunum. Margar þessara sendinga þurfa að komast tímanlega undir jólatréð og enginn má fara í jólaköttinn.

Eins og gefur að skilja er mikið álag á tollgæslunni á þessum árstíma. Því er vert að skoða hvað bera að hafa í huga við móttöku á sendingum að utan.

Gjafir frá vinum og vandamönnum erlendis

Gjafir sem eru virði 13.500 kr. eða minna eru undanþegnar aðflutningsgjöldum ef sendandi er búsettur erlendis. Sama er hvort gjafirnar eru sendar eða hafðar meðferðis til landsins.

  • Greiða ber aðflutningsgjöld af þeirri upphæð sem fer umfram 13.500 kr.
  • Kvittun sem sýnir fram á verðmæti þarf að vera til staðar (hana má hengja utan á pakkann).
  • Sé gjöf send beint frá netverslun þarf að koma fram í fylgiskjölum að greiðandi sé búsettur erlendis.
  • Þegar gjöfum til fleiri en eins einstaklings er pakkað saman er mikilvægt að það komi fram í fylgiskjölum.
  • Vörur sem einstaklingar búsettir á Íslandi panta í erlendum netverslunum og fá sendar til landsins njóta ekki undanþágu sem gjafir.

Athugið að ýmis kostnaður getur fylgt afgreiðslu sendinga til landsins sem ekki eru gjöld lögð á af tollyfirvöldum. Þar má nefna þjónustu tollmiðlara, t.d. vegna tollskýrslugerðar eða heimkeyrslu.

Nánari upplýsingar um móttöku gjafa 

Verslað erlendis

Þegar vara er flutt til landsins leggjast á hana ýmis gjöld sem eru mismunandi eftir því um hvaða vörur er að ræða. Gjöldin geta t.d. verið virðisaukaskattur, tollur, vörugjöld og úrvinnslugjald.

Prófaðu reiknivél fyrir innflutningsgjöld og sjáðu hvað varan þín mun kosta við komuna til landsins.

Þegar vörur eru sendar til landsins koma þær aldrei til Skattsins heldur eru þær í vörslu flutningsaðila.

  • Vara send í pósti berst til Íslandspósts.
  • Vara send með hraðsendingarfyrirtæki berst til viðkomandi fyrirtækis á Íslandi.
  • Vara send með öðrum farmflytjanda t.d. skipafélagi eða flugfélagi er í þeirra höndum fram að afhendingu.

Þessir aðilar hafa samband við þig þegar varan er komin til að afhenda þér vöruna eftir að tollafgreiðslu er lokið og jafnframt ef þeir þurfa á frekari upplýsingum að halda til að geta framkvæmt tollafgreiðslu t.d. ef vörureikning vantar.

Nánari upplýsingar um sendingar að utan


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum