Fréttir og tilkynningar


Niðurstöður álagningar einstaklinga 2016

30.6.2016

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2016.

Forsendur álagningar, innheimta eftirstöðva og greiðsla inneigna

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2016 sem er á tekjur ársins 2015. Stærsti hluti álagðra gjalda hefur þegar verið innheimtur í staðgreiðslu opinberra gjalda en þó eru útvarpsgjald, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, og slysatryggingagjald innheimt við álagningu. Þá fer ennfremur fram uppgjör staðgreiðslu og ákvörðun á barnabótum og vaxtabótum. Þeir framteljendur sem eiga inneign eftir álagningu fá þær lagðar inn á bankareikninga 1. júlí nk.

Fjöldi framteljenda og áætlaðir aðilar

Á skattgrunnskrá 2016 voru 277.606 framteljendur og hafa þeir aldrei verið jafnmargir. Framteljendum fjölgaði um 5.800 einstaklinga eða 2,1% milli ára. Er það mesta fjölgun sem hefur orðið frá efnahagshruninu 2008. Framtalsskil gengu vel og staðfesting framtala var yfirleitt tímanlega á ferðinni. Að þessu sinni voru það 11.762 einstaklingar sem ekki skiluðu skattframtali og sæta áætlun opinberra gjalda eða 4,24% af heildarfjölda. Er það svipað og undanfarin ár en áætlunum hefur fækkað mjög síðustu ár. Framtalsskil hafa því batnað mikið á síðustu árum.

Álagning 30. júní í stað 31. júlí

Álagning opinberra gjalda einstaklinga 2016 fer nú fram mánuði fyrr en undanfarna áratugi. Ákveðið var að flýta álagningunni, m.a. svo flestir framteljendur gætu kynnt sér niðurstöður álagningarinnar fyrr. Samtímis hefur kærufrestur verið lengdur í 60 daga.

Rafræn framtalsgerð, pappírsframtöl eru að hverfa

Framtalsgerðin er nú eins og fyrri ár, mun einfaldari fyrir allan þorra almennings heldur en var fyrr á árum. Þar skiptir miklu að framtöl eru að mestu fyrirframgerð með áritun upplýsinga inn á framtöl. Skilum á launamiðum, hlutafjármiðum og öðrum gögnum sem færð eru inn á framtal var fylgt eftir með heimsóknum til þeirra aðila sem ekki stóðu skil á gögnum innan auglýstra tímamarka. Betri skil gagna hafa í för með sér færri villur og nákvæmari framtalsgerð.

Rafræn stjórnsýsla hefur jafnt og þétt verið að festa sig í sessi hin síðari ár. Ríkisskattstjóri hefur leitast við að gera samskipti milli framteljenda og ríkisskattstjóra í auknum mæli rafræn og nýtur sú þjónusta mikilla vinsælda. Framtalsgerðin er mun einfaldari, þægilegri en það sem mestu máli skiptir, öruggari en fyrr á árum. Við álagningu opinberra gjalda árið 2016 bárust aðeins 37 hefðbundin framtöl á pappír en auk þess bárust 689 pappírsframtöl erlendra einstaklinga sem dvöldust hérlendis hluta úr árinu. Pappírsframtöl eru þannig nánast horfin og rafræn skattframtöl eru orðin allsráðandi af skiluðum framtölum eða 99,72%.

Framlagning álagningarskrár og kærufrestur

Ríkisskattstjóri mun láta álagningarskrár liggja frammi á starfsstöðvum embættisins um allt land næstu tvær vikur eða til 14. júlí nk. í samræmi við 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Kærufrestur rennur út 31. ágúst nk.

Reykjavík 30. júní 2016,
Ríkisskattstjóri


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum