Nýr upplýsingavefur rsk.is
Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á upplýsingavef ríkisskattstjóra, bæði tæknilega og efnislega. Farið er yfir helstu breytingar hér.
Myndir frá opnun nýs rsk.is á 50 ára afmæli RSK
Skipulag og forgangsröðun efnis
Vefnum er skipt upp í fjóra megin flokka; einstaklinga, atvinnurekstur, fyrirtækjaskrá og fagaðila. Auk þess eru upplýsingar um embættið flokkaðar sér, en þar er að finna efni um starfsstöðvar, skipurit, áherslur og starfsmannastefnu, svo fátt eitt sé nefnt.
Allt efnið hefur verið endurskoðað, margt af því verið endurbætt, sumt hreinlega endurgert og einnig hefur nýju efni verið bætt við vefinn. Til að gera texta vefsins skiljanlegri var mikil áhersla lögð á að taka allar tilvísanir í lög og reglugerðir út úr efnislegum texta. Þetta á sérstaklega við um efni sem snertir einstaklinga. Í textanum er því ekki lengur að finna beinar tilvísanir í lög og reglugerðir. Tilvísanir í lög og reglugerðir eru þó birtar sérstaklega á efnissíðum þannig að þær eru ávallt aðgengilegar fyrir þá sem vilja kafa dýpra.
Skipulag vefsins var hugsað út frá skjástærð snjallsíma en slík nálgun kallar á forgangsröðun efnis þannig að aðalatriðin séu í forgrunni. Má sem dæmi nefna að í stað þess að vera með línulega framsetningu á efni um virðisaukaskatt fyrir einstaklinga er athyglinni sérstaklega beint að átakinu „Allir vinna“, þ.e. að endurgreiðslum vegna vinnu við endurbætur og viðhald húsnæðis, sem og að því að skila má endurgreiðslubeiðninni rafrænt. Að sjálfsögðu má einnig nálgast almennar upplýsingar um virðisaukaskatt fyrir einstaklinga en sú umfjöllun er ekki í forgrunni á síðunni.
Þrátt fyrir forgangsröðun efnis getur umfjöllun um einstök skattamál oft orðið yfirgripsmikil og flókin og vandasamt að koma efninu til skila svo vel sé. Leitast er við að forðast framsetningu sem kallar á langan texta. Mikið af efnissíðum vefsins byggja því á þeirri aðferð að hafa stuttan inngang og síðan lista með atriðum sem hægt er að sprengja upp til að skoða nánar. Slíkir listar eru auðkenndir með + merki.
Uppflettingar í fyrirtækjaskrá, virðisaukaskattsskrá og ársreikningaskrá sameinaðar í eina
Sú þjónusta sem er mest notuð á upplýsingavefnum er að fletta upp í fyrirtækjaskrá, en ríkisskattstjóri hefur einnig boðið upp á slíka möguleika fyrir bæði ársreikninga- og virðisaukaskattsskrá. Til að auðvelda notendum þessar uppflettingar hefur þetta nú verið sameinað í eina vefþjónustu. Notandinn þarf því ekki lengur að leita í þremur skrám til að nálgast allar þessar upplýsingar.
rsk.is er „snjall vefur“
Við hönnun á nýjum upplýsingavef var tekin ákvörðun um að hafa ekki sérstakan vef fyrir farsíma heldur hanna einn vef óháð tækjabúnaði notenda hans. Nýi vefurinn aðlagar sig ólíkum skjástærðum, hvort heldur er fyrir hefðbundna tölvuskjái, spjaldtölvur eða snjallsíma. Aðal kosturinn við að hafa einn vef, óháðan tækjabúnaði til skoðunar, er sá að allar vefslóðir eru nákvæmlega eins, sem og allur texti sem birtist og þeir valmöguleikar sem í boði eru. Mjög mikilvægt er fyrir notendur að vefslóðir séu alltaf eins, enda getur verið erfitt að opna í litlum snjallsíma vefslóð sem eingöngu er hönnuð fyrir stóran skjá. Á hefðbundnum tölvuskjá birtist vefsíðan í fullri stærð en ef vefurinn er skoðaður í spjaldtölvu eða lítilli fartölvu þjappast dálkar saman og verða mjórri. Ef vefurinn er skoðaður á mjög litlum skjá, líkt og í snjallsíma, fer nánast allt efni í einn dálk, því er endurraðað, grafík verður einfaldari og minna af myndefni.
Aðgengi
Boðið er upp á vefþjónustu frá stillingar.is en þjónustan kemur til móts við þarfir fólks sem á erfitt með að lesa, t.d. vegna sjónskerðingar eða lesblindu. Með slíkri þjónustu er sem dæmi hægt að velja litasamsetningu, stafagerð, leturstærð, bil á milli lína og orða, og fleiri slík atriði sem henta hverjum og einum.
Leitarvélin
Leitarvél vefsins er mun fullkomnari en sú sem var á gamla vefnum. Með tengingu við beygingarlýsingu íslensks nútímamáls getur leitarvélin unnið með ólíkar beygingarmyndir orða. Það þýðir að ef slegið er inn leitarorðið „tekjuskattur“ birtir leitarvélin einnig niðurstöður af beygingarmyndum orðsins á borð við „tekjuskatti“, „tekjusköttum“, „tekjuskattanna“ o.s.frv. Þessi nýjung gerir það að verkum að leitarvélin finnur meira efni sem uppfyllir leitarskilyrði notandans.
Að auki getur leitarvélin sleppt því að leita í mjög sérhæfðu efni líkt og ákvarðandi bréfum og bindandi álitum, en fjöldi slíkra á vefnum skiptir nokkrum hundruðum. Slíkt efni kemur þá ekki fram í leitarniðurstöðum nema sérstaklega sé óskað eftir því. Með þessu er verið að ná tvennu fram: annars vegar að auðvelda fagaðilum leit í sérhæfðu efni og hins vegar að flækja ekki leitarniðurstöður fyrir notendur sem frekar óska eftir almennum upplýsingum.