Fréttir og tilkynningar


Afhending veflykla til óviðkomandi aðila

2.5.2013

Ríkisskattstjóri hvetur til að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og þar sem við á, einnig til undirritunar.

Rafræn skilríki eiga með tímanum að leysa drjúgan hluta veflykla af hólmi. Flestir nota þó enn veflykla til auðkenningar.

Hver einstaklingur og hvert félag getur átt allt að fjóra veflykla. Annars vegar eru það almennir lyklar, sem eru aðalveflykill og skilalykill fagaðila. Hins vegar sérlyklar til nota í atvinnurekstri, fyrir rafræn skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Þeir nýtast að auki til rafrænna skila á öðrum gjöldum og sköttum, s.s. fjársýsluskatti, tryggingagjaldi, fjármagnstekjuskatti og gistináttaskatti.

Ríkisskattstjóri hvetur handhafa veflykla RSK til að varðveita þá vel og láta óviðkomandi aðilum veflyklana ekki í té. Öll afhending veflykla til óviðkomandi getur upplýst þann aðila um persónuleg málefni er snerta fjárhagsstöðu framteljanda og samskipti hans við ríkisskattstjóra. Ef endurskoðandi eða bókari annast framtalsgerð fyrir framteljanda skal afhenda honum skilalykil fagaðila, sem veitir ekki jafn víðtækan aðgang og aðalveflykill.  

Að gefnu tilefni er brýnt fyrir framteljendum að afhenda ekki veflykla þótt óskað sé eftir upplýsingum af skattframtali.  Ef framteljandi þarf að afhenda afrit af skattframtali til fjármálastofnunar, eða annars aðila sem sýslar með fjárhagsupplýsingar, skal ekki afhenda veflykil til þess aðila heldur afhenda sjálf gögnin.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum