Fréttir og tilkynningar


Lækkun vaxtabóta 2014

31.7.2013

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri benda á að bráðabirgðaákvæði um hærri vaxtabætur féll úr gildi um síðustu áramót.

Af því leiðir að samkvæmt gildandi lögum verður hámark vaxtabóta, sem koma til útborgunar 2014, um helmingi lægra en á þessu ári.

Þeir sem eru í fyrirframgreiðslukerfi vaxtabóta fá talsvert lægri ársfjórðungsgreiðslu 1. ágúst en þeir hafa fengið undanfarin ár, enda verða þá greiddar bætur vegna vaxtagjalda á fyrsta ársfjórðungi 2014, eftir að áðurnefnt bráðabirgðaákvæði féll úr gildi.

Nánar: Tímabundið ákvæði

Bráðabirgðaákvæði XLI við lög um tekjuskatt var sett af Alþingi í lok árs 2010 og framlengt 2012, til að mæta breytingum sem urðu í kjölfar efnahagshrunsins, með tímabundinni hækkun vaxtabóta. Það gilti fyrir ákvörðun vaxtabóta 2011, 2012 og 2013 (vegna tekjuáranna 2010, 2011 og 2012). Hámark vaxtagjalda og vaxtabóta var hækkað og reglum um skerðingu vegna tekna og eigna breytt.

Þar sem bráðabirgðaákvæðið er nú fallið úr gildi fer ákvörðun vaxtabóta 2014, vegna tekjuársins 2013, eftir B-lið 68. gr. tekjuskattslaga. Eðli máls samkvæmt nær það einnig til fyrirframgreiðslu vaxtabóta sem koma til útborgunar 1. ágúst 2013.
 

Breyting:

Undir lok árs 2013 var bráðabirgðaákvæðið framlengt um eitt ár, með 6. gr. laga 139/2013. Það kom því ekki til ofangreindra breytinga við ákvörðun vaxtabóta  í álagningu 2014.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum