Vefur ríkisskattstjóra, besti ríkisvefurinn 2013
Vefurinn rsk.is hlaut viðurkenninguna „besti ríkisvefurinn 2013“ að mati dómnefndar.
Á ráðstefnu sem haldin var í gær, fimmtudaginn 28. nóvember, á vegum innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélags Íslands, var tilkynnt hvaða opinberu vefir stofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga þættu bestir í notkun og virkni. Alls voru kannaðir 265 vefir og mat lagt á þætti er snerta innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu. Jafnframt valdi sérstök dómnefnd besta vef sveitarfélags og besta ríkisvefinn fyrir árið 2013.
Upplýsingavefur ríkisskattstjóra, rsk.is, fékk hæstu einkunn en vefurinn fékk í heildina 98 stig af 100 mögulegum, þar af fullt hús stiga í þremur af fyrrgreindum fjórum flokkum.
Að auki hlaut vefur RSK viðurkenninguna: „Besti ríkisvefurinn 2013“ að mati dómnefndar, en formaður hennar var Marta Kristín Lárusdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík. Í umsögn dómnefndar um vefinn segir:
„Vefurinn er uppbyggður á skipulegan hátt og tekist hefur að setja fram gríðarlega mikið magn flókinna upplýsinga á skýran og aðgengilegan hátt. Leitarvélin virkar vel og gerir upplýsingaleit auðvelda. Útlit vefsins er stílhreint, hann hefur rólegt yfirbragð og þægilegt viðmót“
Nýi vefurinn, sem var tekinn í notkun 2. október 2012 á 50 ára afmæli stofnunarinnar, er verk fjölmargra starfsmanna ríkisskattstjóra sem og starfsmanna Hugsmiðjunnar.
Á myndinni eru þeir starfsmenn ríkisskattstjóra sem báru hitann og þungann af vinnu við nýja vefinn. Frá vinstri: Jóhannes Jónsson, Elín Alma Arthúrsdóttir, Einar Valur Kristinsson, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, Haraldur Hansson, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður Björnsdóttir.