Lokafrestur 31. janúar, vegna vinnu á árinu 2011
Endurgreiða má virðisaukaskatt vegna kostnaðar við aðkeypta vinnu við viðhald og endurbætur á íbúðar- og frístundahúsnæði. Samhliða má lækka tekjuskattsstofn um mest 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum og sambúðarfólki. Frestur til að skila inn umsókn vegna vinnu á árinu 2011 rennur út 31. janúar 2012.
Sótt er um tekjuskattsfrádrátt samhliða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts á eyðublaðinu RSK 10.18 Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þetta eyðublað er hægt að nálgast hér á vef ríkisskattstjóra og er það útfyllanlegt. Jafnframt er hægt að sækja rafrænt um endurgreiðsluna á þjónustuvef ríkisskattstjóra, www.skattur.is.
Ef sótt er um eftir þann tíma vegna framkvæmda á síðasta ári heimilast aðeins endurgreiðsluna á virðisaukaskatti en ekki lækkun á tekjuskattsstofni.
Nánari upplýsingar um lækkun á tekjuskattsstofni er að finna hér.
Húsfélög sem fengið hafa endurgreiðslu á virðisaukaskatti fyrir hönd eigenda þurfa að skila til ríkisskattstjóra sundurliðun á kostnaði þannig að eigendur geti átt rétt á lækkun á tekjuskattsstofni við álagningu 2012.
Einstaklingar sem hafa fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna ársins 2011 þurfa engar frekari upplýsingar að senda inn. Tekjuskattsfrádrátturinn mun verða áritaður inn á framtalið í samræmi við upplýsingar í umsókn um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þó þurfa þeir einstaklingar sem sóttu um endurgreiðslu fyrir hönd annarra að senda inn sundurliðun þar sem kostnaðinum er skipt niður á þá einstaklinga sem kostuðu framkvæmdirnar og eiga því að njóta tekjuskattsfrádráttar.