Samstarf ASÍ, SA og RSK
Samstarf ASÍ, SA og RSK um eflingu góðra atvinnuhátta.
Átakið mun standa fram á haustmánuði. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir.
Markmið verkefnisins er að stuðla að betri tekjuskráningu, tryggja að starfsmenn séu skráðir á launaskrá og að farið sé að lögum og reglum. Um leið er hvatt til þess að opinber gjöld skili sér á réttum tíma ásamt lögboðnum og samningsbundnum framlögum til lífeyrissjóða og gjöldum til stéttarfélaga.
Átakið verður gert undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum”. Þar er skírskotað til þess að bæði atvinnurekendur og launafólk hafi víðtækar skyldur til starfsgreina sinna og samfélagsins í heild. Fyrirtæki í fjölda atvinnugreina um land allt verða heimsótt.
Af fréttamannafundi 14. júní sl. Frá vinstri: Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.