Fréttir og tilkynningar


Samstarf ASÍ, SA og RSK

16.6.2011

Samstarf ASÍ, SA og RSK um eflingu góðra atvinnuhátta.

Frá fréttamannafundinumAlþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri hafa ákveðið að taka höndum saman og ráðast í sérstakt átak til þess að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli. Athyglinni verður beint sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum séu skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.
Átakið mun standa fram á haustmánuði. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir.
Markmið verkefnisins er að stuðla að betri tekjuskráningu, tryggja að starfsmenn séu skráðir á launaskrá og að farið sé að lögum og reglum. Um leið er hvatt til þess að opinber gjöld skili sér á réttum tíma ásamt lögboðnum og samningsbundnum framlögum til lífeyrissjóða og gjöldum til stéttarfélaga.
Átakið verður gert undir yfirskriftinni „Leggur þú þitt af mörkum”. Þar er skírskotað til þess að bæði atvinnurekendur og launafólk hafi víðtækar skyldur til starfsgreina sinna og samfélagsins í heild. Fyrirtæki í fjölda atvinnugreina um land allt verða heimsótt.
Af fréttamannafundi 14. júní sl. Frá vinstri: Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA. Af fréttamannafundi 14. júní sl. Frá vinstri: Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum