Fréttir og tilkynningar


Skipting arðgreiðslu í arð og laun

10.3.2011

Leiðbeiningar um skiptingu á arðgreiðslu í arð og laun.

Athugið: Hluti þessara leiðbeininga er fallinn úr gildi í kjölfar breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 73/2011

Spurning:

Einkahlutafélag greiddi eiganda sínum 1.000.000 kr. í arð 1. júní 2010. Skattalegt eigið fé (reitur 7990 á RSK 1.04, framtal 2010) er 2.000.000 kr. Eigandanum bar að reikna sér endurgjald. Hvernig á að haga staðgreiðsluskilum og hvernig er þetta fært í bókhaldi?

Svar:

Skipting arðgreiðslu í arð og laun:

Sá hluti arðgreiðslu sem er umfram 20% af skattalegu eigin fé skal skipt til helminga í arð og laun. Telja skal því 300.000 kr. til launa (1.000.000-(2.000.000x0,2))/2. Staðgreiðsla af arði (18% árið 2010) reiknast því af 700.000 kr. eða 126.000 kr.

Bókhald:

Farið er með heildar arðgreiðsluna sem hverja aðra arðgreiðslu í bókhaldi og ársreikningi.

Staðgreiðsluskil:

Skila skal staðgreiðslu af þeim hluta arðgreiðslunnar sem telst sem laun með staðgreiðslu af launum. Í framangreindu dæmi telst 300.000 kr. til launa og 700.000 kr. til arðs. Staðgreiðslu af launahlutanum bar að skila 15. júlí 2010 og staðgreiðslu af arðinum 4. ágúst 2010.

Launamiði:

Sá hluti arðgreiðslunnar sem telst vera laun í skattskilum skal færa í reit 02 á launamiða og er þar innifalinn í öðrum launum. Þessi hluti arðgreiðslunnar er einnig frádráttarbær rekstrar­kostnaður félagsins og ber tryggingagjald. Þessi laun og staðgreiðsla af þeim eru ekki sérgreind á launamiða.

Hlutafjármiði:

Arðgreiðslan er að fullu færð í reit 78 á hlutafjármiða. Í reit 75 er tilgreindur sá hluti sem telst til launa. Í reit 79 er færð inn afdregin staðgreiðsla af þeim hluta sem telst til arðs (700.000 kr.). Staðgreiðsla af launum er ekki tilgreind á hlutafjármiða.

Framtalsskil:

Við framtalsskil og útfyllingu á RSK 1.04 fara síðan öll laun í reit 3030, þar með talinn sá hluti sem er vegna arðgreiðslunnar (300.000 kr.) og leiðrétting gerð í reit 3170 þar sem launin eru færð til samræmis við gjaldfærð laun í ársreikningi. Þá þarf að gjaldfæra þann hluta launanna sem var bakfærður í reit 3170 í skattalegum leiðréttingum. Þá er heildar arðgreiðslan (1.000.000 kr.) færð í reit 6390 fyrir úthlutaðan arð.

Hlutafjármiði
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum