Fréttir og tilkynningar


Ný lög um rafrettur hafa tekið gildi

4.3.2019

Föstudaginn 1. mars sl. tóku gildi lög um rafrettur nr. 87/2018. Samkvæmt 6. gr. laganna er einungis heimilt að flytja inn, selja eða framleiða áfyllingar sem teljast öruggar og uppfylla ákvæði laganna.

Í því felst að einungis er heimilt að flytja inn áfyllingar sem innihalda að hámarki 20 mg/ml af nikótínvökva, sbr. 8. gr. laganna. Þá er óheimilt að flytja inn rafrettur, hylki eða áfyllingar sem innihalda vítamín eða önnur efni sem gefa í skyn heilsufarslegan ávinning, sem innihalda koffín, tárín eða önnur aukaefni og örvandi efni sem eru tengd orku og lífsþrótti, sem innihalda efni sem lita losun, auðvelda innöndun eða upptöku nikótíns eða sem innihalda efni sem hafa krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða æxlunarskaðandi eiginleika í því formi sem þeirra er neytt, sbr. 9. gr. laganna. Eftirlit með framfylgd laganna er í höndum Neytendastofu og eingöngu er heimilt að flytja inn rafrettur og áfyllingar sem hafa verið tilkynntar til Neytendastofu, sbr. 14. gr. laganna. Að lokum er rétt að benda á að einungis má flytja inn rafrettur sem eru með barnalæsingu og teljast öruggar, þannig að þær leki ekki og að í þeim sé búnaður sem tryggir áfyllingu án leka. Einungis einstaklingar 18 ára og eldri mega flytja inn rafrettur.

Á heimasíðu Neytendastofu, www.neytendastofa.is, má finna frekari upplýsingar um rafrettur og áfyllingar í þær en þar mun fljótlegast birtast listi um þær vörur sem heimilt er að selja og flytja inn til landsins.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum