Fréttir og tilkynningar


Nýir samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur

24.4.2018

Þann 1. maí taka gildi nýir samningar Íslands og Evrópusambandsins sem undirritaðir voru 17. september 2015 í Reykjavík, en formlegar viðræður hófust árið 2012. 

Nýjum samningum er ætlað að koma í stað samninga frá 2001 um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur og 2007 um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.

Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Almennt gerir ESB slíkt hið sama. Niðurstaðan felur í sér að allir tollar á unnar landbúnaðarvörur eru felldir niður nema á jógúrt. Sem dæmi munu tollar falla niður á súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum o.fl. Auk þessa eru tollar felldir niður eða lækkaðir á óunnum landbúnaðarvörum eins og t.d. villibráð, frönskum kartöflum, útiræktuðu grænmeti o.fl.

Jafnframt er samkomulag um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsra innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Á móti fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost.

Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði, sem taka gildi 1. maí 2018, verða aðgengilegir frá og með 27. apríl 2018.

Ítarlegri upplýsingar sem og samningana sjálfa má finna á vefsíðu Stjórnarráðsins


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum