Nýjar reglur varðandi innflutning á raftækjum
Þann 1. september 2013 tekur gildi breyting vegna innflutnings á raftækjum. Þetta varðar ekki öll raftæki heldur eingöngu tiltekin raftæki skv. reglugerð, sjá listann í viðauka C.
Sbr. einnig breyting á lista í viðauka C með reglugerð nr. 761/2013. Í meginatriðum eiga innflytjendur raftækja í atvinnuskyni að vera aðilar að skilakerfi Umhverfisstofnunar og skrá sitt númer í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Vegna breytingarinnar var búinn til nýr leyfislykill, LRT [Leyfi raf- og rafeindatæki, aðild að skilakerfi] og eru öll tollskrárnúmer tengd lyklinum, sem eru háð þessu skilyrði.
Almennt um breytingu
Almennt skulu innflytjendur í atvinnuskyni vera aðilar að skilakerfi Umhverfisstofnunar. Skráningin fer annað hvort fram hjá Umhverfisstofnun eða í gegnum annað tveggja viðurkenndra skilakerfa (RR skil eða Samskil). Nálgast má frekari upplýsingar um skilakerfi vegna raf- og rafeindatækja á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Frá 1. sept. 2013 eiga innflytjendur að vísa til leyfislykilsins LRT og leyfisnúmers Umhverfisstofnunar í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Lista yfir leyfisnúmer Umhverfisstofnunar má nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
Undantekningar
Frá framangreindri reglu eru tvær undantekningar: a) Varan er sannanlega ekki raf- eða rafeindatæki; þá er vísað til LRT og EKKIRAF í reit 14; b) Innflutningur einstaklinga vegna einkanota; þá er vísað til LRT og EINKNT í reit 14.
Upplýsingar vegna hugbúnaðar til tollskýrslugerðar
Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði vegna innflutnings vara, sem taka gildi 1. september 2013, eru aðgengilegir hér á vef Tollstjóra. Í CUSDOR skeyti (EDI skeyti), beiðni send innflytjanda eða tollmiðlara um að senda tiltekin tollskjöl aðflutningsskýrslu til Tollstjóra, er tekinn upp nýr skjalakódi: Leyfi raf- og rafeindatæki, aðild að skilakerfi. Í tollskýrslugerðarhugbúnaði þarf að stofna LRT leyfislykilinn í skrá/töflu, sem notuð er vegna reits 14 í aðflutningsskýrslu og einnig þarf að stofna LRT lykilinn sem skjalakóda er komið getur í CUSDOR skeyti; bara LRT leyfislykillinn sjálfur er sendur í skeytinu, en túlka þarf leyfislykilinn í textann: Leyfi raf- og rafeindatæki, aðild að skilakerfi.