Fréttir og tilkynningar


Nýr tölfræðivefur RSK

9.12.2016

Í dag opnaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, nýjan tölfræðivef embættis ríkisskattstjóra – greining.rsk.is

Embætti ríkisskattstjóra býr yfir gríðarlegu magni upplýsinga í gagnagrunnum sínum sem til þessa hafa verið lítt aðgengilegar almenningi Þær lýsa vel þeim efnahagslega raunveruleika sem íslenskt samfélag býr við. Með opnun vefjarins er ætlun ríkisskattstjóra að birta hagtölur og upplýsingar úr kerfum og gagnagrunnum embættisins með myndrænum og gagnvirkum hætti svo almenningur geti á aðgengilegan hátt glöggvað sig á lykiltölum íslenskrar skattframkvæmdar.

Fyrst um sinn verður efni vefjarins skipt upp í tvo megin þætti, þ.e. upplýsingar um einstaklinga annars vegar og um lögaðila og atvinnurekstur hins vegar. Með tímanum má gera ráð fyrir að efnisinnihald vaxi og fjölbreyttari upplýsingar verði aðgengilegri. 
Upplýsingar um einstaklinga eru að mestu unnar upp úr framtölum einstaklinga og álagningu opinberra gjalda á grundvelli framtalanna. Þar er hægt að skoða upplýsingar um fjölda skattgreiðenda, laun, lífeyri og fjármagnstekjur, um eignir og skuldir, skatta og bætur. Mögulegt er að bera þær tölur saman út frá nokkrum mismunandi forsendum, en þær eru: Landsvæði, aldur, kyn og hjúskaparstaða.

Tölur um atvinnurekstur eru unnar upp úr skattframtölum, virðisaukaskattsskilum og öðrum skrám embættisins. Á vefnum er hægt að skoða fjölda fyrirtækja, tekjur, gjöld og hagnað. Upplýsingar um eignir, skuldir og eigið fé og um launagreiðslur, launatengd gjöld og virðisaukaskatt. Hægt er að velja tilteknar atvinnugreinar og/eða landshluta og bera saman þróun milli ára.

Það er von ríkisskattstjóra að vefur þessi geti veitt almenningi innsýn í hagtölur, veitt innlegg í uppbyggilegar umræður og verið gagnlegur fyrir sem flesta.

Bjarni Benediktsson, frjármála og efnahagsráðherra, að opna tölfræðivefinn greining.rsk.is

Hér má sjá þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði nýja tölfræðivefinn. Með honum á myndinni er Tryggvi Þór Herbertsson


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum