Fréttir og tilkynningar


Opnað fyrir endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna framkvæmda á árinu 2022

3.2.2022

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda sem fara fram á árinu 2022. Þá voru breytingar gerðar á reglum um endurgreiðslu VSK um áramót sem rétt er að skýra nánar.

Breytingarnar snúa einna helst að því að tímabundnar hækkanir endurgreiðsluhlutfalls og útvíkkun úrræðisins vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru dregin til baka í nokkrum þrepum á árinu 2022.

Framkvæmdir við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði

Heimilt er að sækja um endurgreiðslu vegna vinnu manna á staðnum við byggingu, viðhald og endurbætur  á íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði.

  • Fyrir íbúðarhúsnæði verður endurgreiðsluhlutfall 100% til 31. ágúst 2022. Það lækkar í 60% frá og með 1. september 2022.
  • Fyrir frístundahúsnæði verður 100% til 30. júní 2022. Heimild til endurgreiðslu fellur niður frá og með 1. júlí 2022.
  • Endurgreiðsluheimild vegna hönnunar og eftirlits íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis verður 100% til 30. júní 2022 en fellur niður frá og með 1. júlí 2022.

Heimilisaðstoð og regluleg umhirða

Endurgreiðsluhlutfall vegna heimilisaðstoðar eða reglulega umhirðu verður 100% til 30. júní 2022 en fellur niður frá og með 1. júlí 2022. 

Bílaviðgerðir

Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða féll niður frá og með 1. janúar 2022. Áfram er hægt að sækja um endurgreiðslu vegna viðgerða sem fóru fram á tímabilinu 1. mars 2020 til 31. desember 2021.

Húsnæði í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og almannaheillafélaga

  • Endurgreiðsluhlutfall vegna framkvæmda við húsnæði, annað en íbúðarhúsnæði, í eigu sveitarfélaga eða stofnana þeirra verður 100% til 30. júní en fellur niður frá og með 1. júlí 2022.
  • Endurgreiðsluhlutfall vegna framkvæmda við húsnæði í eigu tiltekinna félagasamtaka, s.s. mannúðarfélaga, björgunarsveita, kirkju- og trúfélaga féllu niður frá og með 1. janúar 2022. Rétt er þó að benda á nýtt ákvæði um húsnæði almannaheillafélaga.
  • Vegna framkvæmda við húsnæði í eigu félaga á almannaheillaskrá Skattsins er heimilt að að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Endurgreiðsluhlutfall verður 100% út árið 2025 og lækkar þá í 60%.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum