Fréttir og tilkynningar


RSK tekur þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar

24.3.2017

Velferðarráðuneytið hefur tilkynnt að fjórir vinnustaðir hafi verið valdir til að taka þátt í tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar.

Markmiðið verkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi vinnustaða en verkefnið kemur í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 28. október 2015 í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB. Þeir vinnustaðir sem hefja tilraunina eru, auk ríkisskattstjóra, Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Útlendingastofnun og Þjóðskrá.

Tilraunaverkefnið mun standa í eitt ár, frá 1. apríl næstkomandi til 1. apríl 2018. Vinnustundum starfsmanna verður fækkað úr 40 á viku niður í 36 stundir án þess að til launaskerðingar komi. Rannsakað verður hver áhrif styttingar vinnutímans verða á gæði og hagkvæmni þjónustu sem vinnustaðirnir veita, auk áhrifa á vellíðan starfsmanna og starfsanda. Sambærilegar mælingar verða gerðar á vinnustöðum þar sem vinnuvikan verður óbreytt til að fá samanburð.

Vegna þessa verkefnis mun opnunartími afgreiðslu og þjónustuvers ríkisskattstjóra breytast. Nýr opnunartími verður frá kl. 9:00-15:30 mánudaga til fimmtudaga og frá kl. 9:00-14:00 á föstudögum. Með þessu lengist heildar opnunartíminn í hverri viku. 

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum