Samkomulag milli Íslands og Kína í tollamálum rekstraraðilum til hagsbóta
Gagnkvæm viðurkenning á AEO-kerfum
Í maí síðastliðnum undirritaði Snorri Olsen, ríkisskattstjóri, samkomulag milli Skattsins og Yfirstjórnar tollamála Alþýðulýðveldisins Kína um gagnkvæma viðurkenningu á kerfi Skattsins fyrir viðurkennda rekstraraðila og ívilnanakerfi kínversku tollgæslunnar fyrir fyrirtæki.
Íslenskum fyrirtækjum stendur til boða að sækja um vottun sem viðurkenndur rekstraraðili (VRA, en: AEO) hjá Skattinum. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina, þ.m.t. inn- og útflytjendur, farmflytjendur og tollmiðlarar. VRA vottunin gefur til kynna að fyrirtækið sé öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni og að það njóti þar af leiðandi viðurkenningar Skattsins og tollyfirvalda í öðrum ríkjum að því gefnu að samningur um gagnkvæma viðurkenningu á VRA/AEO kerfum hafi verið undirritaður milli tollgæslna Íslands og viðkomandi ríkja.
Ísland og Kína hafa átt faglegt og gott samstarf á sviði skatta og tolla. Ríkin tvö undirrituðu tvísköttunarsamning í janúar 1997 og í apríl 2013 var undirritaður yfirgripsmikill fríverslunarsamningur sem tók gildi þann 1. júlí 2014. Það er von Skattsins að gildistaka samkomulagsins um gagnkvæma viðurkenningu VRA kerfa landanna verði til þess að auka og styrkja enn frekar faglegt samstarf sem og að auðvelda íslenskum útflytjendum með VRA vottun viðskipti við Kína.