Fréttir og tilkynningar


Samningar við Kanada um fríverslun og viðskipti með landbúnaðarvörur

29.6.2009

Þann 1. júlí næstkomandi taka gildi Fríverslunarsamningur EFTA og Kanada og tvíhliða samningur Íslands og Kanada um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Með ályktun alþingis frá 15. maí 2008 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss) og Kanada. Samningur þessi hefur nú verið fullgiltur af samningsaðilum.

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Kanada, sem hófust árið 1998, lauk í júní 2007. Samningurinn við Kanada er sá fyrsti sinnar tegundar sem Kanada gerir við ríki í Evrópu en EFTA-ríkin hafa nú gert fríverslunarsamninga sem ná til 16 ríkja eða ríkjahópa.

Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta en samkvæmt honum falla tollar niður á iðnaðarvörum og sjávarafurðum þegar við gildistöku samningsins með þeirri undantekningu að Kanada er veittur allt að fimmtán ára aðlögunartími til niðurfellingar tolla á skip og sjóför. Jafnframt munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðar­vörum.

Auk fríverslunarsamningsins hafa Ísland og Kanada gert tvíhliða samning um viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum