Fréttir og tilkynningar


Samningar við Svartfjallaland og Hong Kong um fríverslun og viðskipti með landbúnaðarvörur

1.10.2012

Þann 1. október 2012 taka gildi fríverslunarsamningur EFTA við Hong Kong, Kína og tvíhliða samningur Íslands og Hong Kong, Kína um viðskipti með landbúnaðarvörur sem og fríverslunarsamningur EFTA við Svartfjallaland og tvíhliða samningur Íslands og Svartfjallalands um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Hong Kong, Kína er opinbert heiti Hong Kong. Samningurinn er eingöngu við Hong Kong, en ekki Kína.

Með ályktun alþingis frá 16. maí 2012 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss) og Hong Kong, Kína. Samningur þessi hefur nú verið fullgiltur af samningsaðilum.

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Hong Kong, Kína, sem hófust í janúar 2010, lauk í júní 2011.

Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta en samkvæmt honum falla tollar niður á iðnaðarvörum og sjávarafurðum þegar við gildistöku samningsins. Jafnframt munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðar­vörum.

Auk fríverslunarsamningsins hafa Ísland og Hong Kong gert tvíhliða samning um viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur.

Samningana við Hong Kong, Kína og ýtarlegar upplýsingar um þá er að finna hér (pdf)

Með ályktun alþingis frá 16. maí 2012 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss) og Svartfjallalands. Samningur þessi hefur nú verið fullgiltur af samningsaðilum.


Samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Svartfjallaland, sem hófust í apríl 2011, lauk í nóvember 2011.

Samningurinn nær fyrst og fremst til vöruviðskipta en samkvæmt honum falla tollar niður á iðnaðarvörum og sjávarafurðum þegar við gildistöku samningsins með þeirri undantekningu að Svartfjallalandi er veitt undanþága fyrir viðkvæman fisk og sjávarafurðir í samræmi við viðauka III. Fyrir flestar þessara vara skal tollur afnuminn stig af stigi til ársins 2018. Fyrir tíu tollskrárnúmer, þar sem undir falla fiskur og sjávarafurðir er ekki áætlað að tollur verði felldur niður að fullu, en endurskoðun skal eiga sér stað innan þriggja ára frá gildistöku samningsins.

Upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda eru byggðar á samræmdum upprunareglum fyrir Pan-Euro-Med-samkomulagið (Regional Convention), sem leiðir af sér að samsetning og uppsöfnun uppruna mun verða heimil með hráefnum sem eiga uppruna sinn í EFTA-löndunum, Svartfjallalandi og öðrum löndum sem aðild eiga að Pan-Euro-Med-samningnum þegar sambærilegir samningar hafa verið gerðir milli Svartfjallalands og annarra aðildarlanda.

Auk fríverslunarsamningsins hafa Ísland og Svartfjallaland gert tvíhliða samning um viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur.

Samningana við Svartfjallaland og ýtarlegar upplýsingar um þá er að finna hér


Sjá einnig síðu um tollskrárlykla

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum