Fréttir og tilkynningar


Skilorðsbundið fangelsi og 12 milljóna króna sekt vegna skattalaga- og bókhaldsbrota ásamt peningaþvætti

19.4.2021

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem karlmaður var sakfelldur fyrir meiri háttar skattalagabrot og peningaþvætti og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk sektar að fjárhæð ríflega 12 milljónir króna, í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra.

Annars vegar var um að ræða skil á efnislega röngu skattframtali vegna einkahlutafélagsins FO gjaldárið 2010, með því að eignfæra ranglega í bókhaldi félagsins greiðslur á sölureikningum vegna framkvæmda við ótengda fasteign, sem varanlegar endurbætur tveggja tilgreindra fasteigna í eigu félagsins og jafnframt gjaldfæra óheimilar fyrningar af þessum offærðu eignfærslum í bókhaldi og skattframtali félagsins.

Hins vegar með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir einkahlutafélagið FÁ gjaldárin 2011 og 2012, með því að gjaldfæra óheimilar fyrningar af hinum offærðu eignum í skattframtali félagsins fyrra árið og vantelja söluhagnað í skattframtölum bæði árin vegna sölu á fasteignunum.
Þá var einnig var sakfellt fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald og peningaþvætti. Við ákvörðun refs­ing­ar var litið til þess að ásetn­ing­ur til brot­anna hefði verið ein­beitt­ur og að brot­in hefðu staðið yfir í þrjú ár en einnig tekið tillit til þess að fyrir lá játning og væru skattskuldir félaganna greiddar að fullu, auk þess sem litið var til þess langa tíma sem rannsóknin hefði tekið.

Dómur Landsréttar

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum