Fréttir og tilkynningar


Skilorðsbundið fangelsi og 13 milljónir króna sekt

19.4.2021

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt mann fyrir meiri háttar skattalagabrot og peningaþvætti í héraðsdómi. Var hann dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða 13 milljóna króna sekt innan fjögurra vikna.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum í sjálfstæðri starfsemi sinni vegna rekstraráranna 2015 til og með 2017 og fyrir að hafa vanrækt að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn. Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á röngum skattframtölum sínum vegna sömu ára og vanrækt þannig að telja fram rekstrartekjur sínar og leigutekjur. Einnig var hann sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald með því að hafa með tilgreindum hætti rangfært bókhald og þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði hafði hlotið skilorðsbundinn átta mánaða fangelsisdóm árið 2017 auk 95 milljón króna sektar vegna meiri háttar skattalagabrota og að ofangreind brot væru að hluta skilorðsrof og að því bæri að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Var því skilorðsdómurinn dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur verður birtur síðar.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum