Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi - skattsvik
Í áhættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kom út í dag kemur m.a. fram að áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi fari vaxandi. Í skýrslunni kemur fram að skattsvik séu umfangsmikill hluti svarta hagkerfisins.
Verði að ætla að hluti skattundanskota tengist peningaþvætti og annars konar skipulagðri glæpastarfsemi með beinum og/eða óbeinum hætti. Metur ríkislögreglustjóri hættu tengda peningaþvætti, svarta hagkerfinu, skattsvikum og spillingu í efsta stigi eða sem „gífurlega áhættu“. Í áhættumatsskýrslu ríkislögreglustjóra er einnig vakin athygli á nýlegri skýrslu norsku efnahagsbrotalögreglunnar, þar sem fram kemur að skattsvik verði áfram fyrirferðamesti brotaflokkurinn á sviði efnahagsbrota.