Fréttir og tilkynningar


Stjórnarmenn félags dæmdir til 25 milljóna króna sektar vegna vanskila vörsluskatta

14.4.2021

Með dómi nr. S-3508/2020 hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt tvo fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins X ehf. til þess að greiða samtals 25.000.000 kr. sekt í ríkissjóð og í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi, til tveggja ára, fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti að fjárhæð rúmlega 9 milljónum króna og staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð rúmlega 6 milljónum króna.

Þá voru þeir jafnframt dæmdir fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa nýtt ávinning af skattalagabrotunum í þágu rekstrar X ehf. Ákærði Á var stjórnarformaður félagsins og ákærði G sat í varastjórn félagsins en þeir voru báðir með prókúru vegna félagsins. Fyrir lá að þeir hefðu stofnað og átt félagið í sameiningu og sýnt þótti fram á að þeir hefðu báðir komið að rekstri félagsins. Að því sem fram hefði komið í málinu yrði ráðið að þeir hefðu báðir verið meðvitaðir um versnandi stöðu félagsins og féllst dómurinn ekki á að ábyrgð G hefði verið meiri í ljósi þess að hann hefði greitt reikninga félagsins og laun. Hefði Á haft fullt tækifæri til að fylgjast með fjárhagsstöðu félagsins og voru þeir því báðir látnir axla ábyrgð á skattskilum félagsins sem eigendur, stjórnarmenn og daglegir stjórnendur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur verður birtur síðar.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum